Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:49:30 (8135)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:49]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður má ekki verða reiður eða láta það fara í taugarnar á sér þó að ungur þingmaður tali hér eins og henti hv. þingmann. Maður finnur þó í öðru hverju orði mikinn velvilja til landbúnaðarins og sveitanna og fyrir það vil ég þakka og fagna. Ég minni hv. þingmann á á hvaða rót hann stendur, hann er í Samfylkingunni. Samfylkingin er byggð á Alþýðuflokknum gamla sem hafði það að pólitískri atvinnu að berja bændur undir belti og valda þeim miklum skaða í almenningsáliti í gegnum áratugi. Ég ætla ekki að rifja upp þá sorgarsögu heldur fagna hverjum liðsmanni og það er hv. þingmaður vissulega.

Ég minni hann á að ef hann fer um Suðurland þá sér hann nýja búgarða. Þau eru fleiri hundruð, ný lögbýli sem ég hef skrifað undir. Fólk er að flytja út á land, út af hrossum, trjám, ferðaþjónustu, í sveitina til að lifa þar í menningunni. Glæsileg þróun sem kemur á móts við fækkun og stækkun búa. Kúabúin eru ekki orðin stór á Íslandi að meðaltali, um 130 þúsund lítra bú. Hefði hv. þingmaður farið á landsfund sauðfjárbænda hefði hann fundið þar mikla bjartsýni. Sauðfjárbændur eru að meðaltali tekjulágir en þeir lifa á mörgu öðru, auðlindum, eru með kýr, eru með ferðaþjónustu og gera hitt og þetta annað. Sauðfjárræktin er í mikilli þróun. Þeir þökkuðu núna virkilega fyrir þann búvörusamning sem þeir fengu á sínum tíma og telja hann sitt tæki til þróunar. Lambakjötsneyslan hefur aukist verulega. Mér sýnist landbúnaðurinn vera í mikilli þróun þó að það sé auðvitað hárrétt að þar eru að verða breytingar.

Mér finnst oft að samfylkingarmenn vilji greiða mönnum svona hóla og hæðir, og jafnvel vinstri grænir einnig, fyrir að gera ekki neitt. Þess vegna er mikilvægt að taka ekki stuðninginn frá þeim sem eru að vinna og framleiða mat, en hins vegar liggur það fyrir, hv. þingmaður, og að því er verið að vinna í alþjóðasamningum, WTO-samningunum, að á þessu kerfi öllu verða breytingar. Á öllu þessu kerfi hafa orðið miklar breytingar í minni tíð og mikill stuðningur komið (Forseti hringir.) við nýjar búgreinar og mun ég fara yfir það í seinni ræðu minni.