Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:53:58 (8137)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:53]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, vissulega kemur til greina að byggðatengja styrki að einhverju leyti og breyta þeim í græna styrki úr framleiðsluhvetjandi styrkjum.

Til að menn sjái hvað hv. ræðumaður var á rangri leið þá gerði hann garðyrkjuna, grænu stóriðjuna að máli. Ég var að rifja það upp og skoða að þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra voru eilífar deilur um grænmetisverð. Ég sat fleiri, fleiri Kastljóssþætti og reifst við menn um það. Síðan mörkuðum við stefnu og gerðum langtímasamning til 2011 við þessa stóriðju sem er nú í örri þróun. Í vetur var enn aukið til raforkuniðurgreiðslu vegna greinarinnar. Hún er í örri þróun í nánd við íbúðarhús hv. þingmanns og um allt Suðurland. Ég finn ekki annað en að friður sé um þennan atvinnuveg.

Hv. þingmaður sá ástæðu til að minnast á hestinn. Það var enginn opinber stuðningur við hestamennskuna þegar ég byrjaði sem landbúnaðarráðherra. Það náðust samningar um að í það færu 40 milljónir á ári. Hv. þingmaður sagði að hestamenn hefðu hvergi komið þar nálægt en Landssamband hestamanna, Félag hrossabænda, Félag tamningamanna og Bændasamtökin skiptu öllu þessu fjármagni í átaksverkefni, stjórn úr þeirra röðum. Sama má segja um Hestamiðstöð Íslands í Skagafirði. Það fór í átaksverkefni hestamennskunni til góða og greinin stjórnaði því eða sú stjórn sem þar var með sveitarfélaginu.

Svo vill hann gera lítið úr umboðsmanni hestsins, sem er samstarfsverkefni með Flugleiðum og KB-banka sem dregur hingað ferðamenn og viðskipti til landsins. Þessi umboðsmaður hefur starfað með Félagi hrossabænda, Félagi tamningamanna, komið að markaðssetningu erlendis og innan lands. Hann er auðvitað eins og stjórnmálamenn umdeildur og ber að vera það. Sitt sýnist hverjum í lífinu. Ég er klár á því að embættið hefur skilað heilmiklu og er að vinna að stórum verkefnum sem verður greininni til framdráttar. Nú er ég að vinna úr þeim stuðningi sem kom á fjárlögum, 25 milljónir. Það verður auðvitað greinin, atvinnugreinin, (Forseti hringir.) áhugamennirnir og aðrir sem koma að því og vinna að því með mér. Þannig að þetta var útúrsnúningur hjá hv. þingmanni.