Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:56:17 (8138)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:56]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra lýsir því svo afdráttarlaust yfir að hann telji það vel koma til greina að byggðatengja frekar stuðninginn við landbúnaðinn en nú er gert (Gripið fram í.) og það sé hans pólitíski vilji að þau skref verði stigin.

Opinber stuðningur við hrossarækt upp á 40 millj. kr. er ákaflega lítill stuðningur en auðvitað á að þakka það sem gert er. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að stuðningur við hrossaræktina verði aukinn, enda er hann aðdáandi og njótandi íslenska hestsins sjálfur persónulega, og þekkir þar vel til og er velviljaður í garð hrossaræktarinnar. En auðvitað þarf að koma til miklu meiri stuðningur við greinina, sérstaklega af því útflutningur á hrossum hefur átt í töluverðum erfiðleikum á liðnum árum, þar hefur gengið á ýmsu þó svo að það sé að nást ákveðið jafnvægi núna. Mjög mikill fjöldi hrossa er á erlendri grund. Feikilegur fjöldi íslenskra hesta er úti um alla Evrópu og töluvert í Norður-Ameríku. Við eigum að ganga lengra þar.

Ég ítreka að það gleður mig að heyra að hæstv. ráðherra ætlar að stíga frekari og stærri skref í því að byggðatengja styrkina. Við hljótum að kalla eftir að sú framtíðarsýn verði dregin upp í dag, um leið og hæstv. ráðherra hlýtur að taka af allan vafa um hvernig hann ætlar að vinna að eða þá hamla gegn þeirri þróun sem á sér stað núna í mjólkuriðnaðinum þar sem hann hefur ítrekað gefið til kynna að sú þróun hugnist honum ekki, hann vilji sjá lítil og meðalstór fjölskyldubú en ekki stór verksmiðjubú í ríkum mæli.

Ég hlakka mjög til, virðulegi forseti, að hlýða á ræðuhöld hæstv. ráðherra hér í dag og á næstu vikum um framtíðarsýn hans í skipan landbúnaðarmála.