Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 11:58:26 (8139)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[11:58]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

Menn hafa farið út um víðan völl, út um skeiðvöll má segja, og hv. þm. Björgvin Sigurðsson fór á kostum, mér fannst hann fara upp af sprettinum en liggja ekki alveg. (Gripið fram í.) Það var ýmislegt sem hann kom inn á og allt annað en það frumvarp sem við ræðum hér, m.a. talaði hann um hestamennsku og má þá minna hv. landbúnaðarráðherra á að framlag ríkisins til hestamennsku er mun meira, vegna þess að það eru ýmsir sjóðir sem styðja við hestamennsku, eins og Framleiðnisjóður landbúnaðarins sem er búinn að leggja tugi milljóna í ákveðið verkefni sem er exemverkefni, en exem hefur háð útflutningi okkar á íslenskum hestum.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um það, frú forseti, en snúa mér að því frumvarpi og nefndaráliti sem hér liggur fyrir varðandi gjald sem verið er að afnema, gjald sem lagt hefur verið á mjólkurframleiðendur. Eins og hér hefur komið fram þá er þetta 1,7% gjald og hefur verið lagt á framleiðendur innan hvers mjólkurbús eða mjólkursamlagssvæðis. Það hefur verið tengt svæðunum og lagt á alla, eins og fram kemur í nefndarálitinu. Það hefur verið lagt á alla þá er leggja inn mjólk þannig að þeir sem ekki hafa verið í sæðingunum hafa jafnframt greitt gjaldið. Ég tel að það hafi verið ofureðlilegt á sínum tíma. Þá var um að ræða nýja starfsemi og eðlilegt að allir tækju þátt í kynbótastarfinu. Það hafa auðvitað allir notið þess, jafnvel þeir sem hafa verið með heimanaut og farið aðrar leiðir. Ég held að það hafi ekki verið ósanngjarnt þótt sumir hafi haldið því fram.

Mig langar fyrst og fremst að spyrja um tvennt. Þetta gjald hefur verið innheimt, upp á 1,7% og á það verið lagður innskattur. Bændur hafa því borgað 1,7% og svo innskatt ofan á, sem þeir hafa þá getað notað í bókhaldi sínu og haft útskatt á móti.

Nú er spurningin, þegar þetta kemur beint til bændanna í gegnum búnaðarsamning, hvort það er með innskatti eða er sú upphæð sem nefnd er í tengslum við þetta, þ.e. 80 millj. kr., sambærileg með eða án innskatts þannig að bændur standi í raun jafn vel á eftir. Það skiptir máli og þetta vita örugglega formaður landbúnaðarnefndar eða hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta er í raun hliðstætt nefskattinum sem við erum að setja á með frumvarpi til nýrra útvarpslaga. Þar er innskattur en á því verður breyting út af nefskattinum, sem svo er kallaður. Þetta er því mjög hliðstæð breyting.

Seinni spurning mín er: Hvernig verður þessum fjármunum skipt? Eins og ég sagði áðan eru þessi 1,7% innheimt á viðkomandi mjólkursölusvæðum eða mjólkurbússvæðum og nýtt á þeim svæðum þannig að þeir mjólkurframleiðendur sem leggja inn á Suðurlandi, hjá Mjólkurbúi Flóamanna, fá það til rekstrar á kynbótastarfi sínu, á Kynbótastöð Suðurlands í því tilfelli. Hið sama á við á Eyjafjarðarsvæðinu o.s.frv. Mig langar því til að spyrja: Hvernig á að skipta þessum fjármunum? Er ljóst, þegar við samþykkjum þetta, hvernig þessum 100 millj. kr. verður skipt? Verður þeim skipt eftir innleggi eða öðrum reglum? Ég held að það verði að vera á hreinu hvernig þessum fjármunum verði skipt milli viðkomandi svæða.