Búnaðarlög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 12:03:37 (8140)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[12:03]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki mjög stórt mál að vöxtum sem hér er til umræðu, um að fella niður gjald sem tekið er í afurðastöðvunum. Ég veit ekki hvað menn hafa kallað þetta, ætli þeir hafi ekki kallað það sæðingargjald eða eitthvað slíkt? Mér þykir það mjög líklegt miðað við textann. Mér finnst eðlilegt að farin sé sú leið sem hér lagt til og gjaldið fellt niður, enda sé ég á nefndarálitinu að enginn í landbúnaðarnefnd leggst í sjálfu sér gegn því.

Menn hafa rætt nokkuð vítt og breitt um landbúnaðinn í tengslum við málið og ég ætlaði að koma í stuttu máli inn á viðhorf mín í þeim efnum. Ég tel mjög mikilvægt, eins og ég hef reyndar mjög oft sagt í þessum ræðustól, að við horfum til þess í framtíðinni að efla og viðhalda byggð í landinu. Þátt í því tel ég m.a. að breyta greiðslu styrkja í landbúnaði og taka upp það sem ég hef viljað nefna búsetuvæna styrki og byggðastyrki. Þannig yrði breytt því greiðslufyrirkomulagi sem verið hefur í landbúnaðinum, þ.e. hinum svokölluðu beingreiðslum. Vísir að þessu er þegar til staðar í samningnum við mjólkurbændur. Þar koma til svokallaðar gripagreiðslur og grænar greiðslur í framtíðinni. Ég tel að það væri í rétta átt.

Hér hefur verið rætt um sauðfjársamninginn. Þar held ég að við þurfum einnig að horfa til þessara hluta. Ég tel mikilvægt að við reynum á einhvern hátt að útbúa styrki sem tengjast meira búsetu á jörðum í sveitum, tryggja jarðnýtinguna og viðhalda byggðamunstrinu. Eins og ég hef oft sagt held ég að það séu mikil verðmæti í því fólgin fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar að byggðin í sveitunum haldi velli og geti þróast. Ég tel að hluti af breytingu á stuðningi við búsetu í sveitum, með því að fara í slíkar útfærslur, sé hluti af þeirri þróun sem þarf að eiga sér stað og efli í raun nýsköpun í sveitum landsins, stuðli að því að fólk hafi frjálsari hendur og meiri möguleika til að finna sér ný og önnur atvinnutækifæri eða atvinnutækifæri til viðbótar við þá hefðbundnu framleiðslu sem við höfum styrkt á undanförnum árum.

Ég hvet til þess að menn hugi að því í framtíðinni að efla styrki sem snúa að viðhaldi byggðar og landnýtingu og þannig hafi bændur í raun nokkuð opnari heimildir til að fá ákveðna styrki til búsetunnar, án þess að þeir séu beinlínis bundnir við að framleiða ákveðið mörg kíló af lambakjöti eða ákveðið magn af mjólk. Þetta held ég að sé mjög æskilegt. Ég heyrði það á svörum hæstv. landbúnaðarráðherra áðan að hann tekur undir þessa hugsun, að þetta þurfi að gera, m.a. með hliðsjón af alþjóðasamningum. Í þeim samningum eru menn stöðugt að vinna og menn telja að þar muni slíkar áherslur koma inn í auknum mæli. Við komumst ekki hjá því að taka mið af því.

Ég held hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur að ákveða sjálf að láta þetta þróast á þennan veg, ákveða sjálf hvert við viljum stefna og efla þannig frumkvæði og möguleika fólks til að setjast að í sveitum landsins. Ég dreg mjög í efa að ofurverð á kvótum, t.d. á mjólkinni, stuðli að því að búsetan í sveitum landsins styrkist og eflist. Ég held að það sé ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af háu mjólkurkvótaverði. Hvernig bregðast menn þá við til að hafa einhver áhrif á að kvótaverðið fari ekki upp úr öllu valdi? Það mætti t.d. hafa áhrif á það með því að hæstv. ráðherra lýsti því yfir að til stæði af hans hálfu að takmarka með einhverjum hætti beingreiðslur inn á bú þegar menn eru komnir yfir það að framleiða ákveðið mikið. Hvað eigum við að segja, 300–500 þús. lítra? Ég veit ekki hvar menn eiga að draga þá línu. En mér finnst alveg sjálfgefið að einhvers staðar dragi menn línu.

Það getur ekki verið svo að við ætlum að safna beingreiðslunum inn á tiltölulega mjög fá stórbú því að ég held að þá verði aldrei friður um útfærsluna. Það verður aldrei friður um það ef menn segja: Við erum á fullri ferð í hagræðingu og ætlum að ná miklum hagnaði út úr búrekstrinum með því að stækka þau. Eru þá einhver rök lengur til þess að þjóðin styrki slíkan hagnaðarrekstur? Ég held að þessi spurning hljóti að koma upp og þeir sem eru í forustu í ríkisstjórninni fyrir landbúnaðarmálum, hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. þm. Drífa Hjartardóttir, hljóti að velta fyrir sér hvert við stefnum með þessu lagi og hvort æskilegt sé að í það stefni að til verði kúabú sem fari jafnvel að framleiða hálfa milljón lítra á ári. Eiga þau að hafa beinan aðgang að styrkjum út á það? Einhvers staðar munum við draga þessa línu, hæstv. ráðherra. Nákvæmlega hvar hún er veit ég ekki en það getur ekki verið svo að menn geti endalaust fengið ávísun úr ríkissjóði, hversu stór og öflug sem bú þeirra verða.

Þetta vildi ég sagt hafa um það sem við þurfum að skoða í landbúnaðinum og þróun hans til framtíðar. Við þurfum einnig að sjá til þess að hluti af styrkjum í landbúnaði verði til þess að styrkja búsetu í sveitum almennt, ekki eingöngu að fækka búum heldur einnig að fólk finni hjá sér hvöt til þess að finna möguleika til annarrar tekjuöflunar en að hluta tengist það jarðnýtingu og búsetu fólks í dreifðum byggðum landsins.