Útflutningur hrossa

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 15:09:06 (8146)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[15:09]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér upp og segja nokkur orð um það mál er varðar breytingar á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa. Það vildi þannig til að ég gat ekki verið viðstödd á fundi hv. landbúnaðarnefndar í fyrradag þegar þetta mál var afgreitt. Þá hafði störfum þingsins verið hagað þannig að fundir voru í tveimur nefndum sem ég sit í, umhverfisnefnd og landbúnaðarnefnd, á sama tíma og ég mátti velja og í það skiptið valdi ég umhverfisnefndina. En það varð til þess að ég hafði ekki tækifæri til að fara yfir lokaumfjöllun nefndarinnar. Í raun hafði ekki verið mikið fjallað um málið í nefndinni, enda er það þar eins og annars staðar í nefndum hins háa Alþingis að mörg mál eru oft afgreidd á allra síðustu stundu, á elleftu stundu, og kannski gefst ekki sá tími til umfjöllunar sem þurfa þykir.

Þó að þetta mál, eins og komið hefur fram í umræðunni, láti ekki mikið yfir sér er hér þó um mjög mikilvægt mál að ræða vegna þess að við erum að fjalla um dýravernd, sem vill nú stundum verða afgangsstærð þegar aðrir hagsmunir sem fólki þykja brýnni eru teknir yfir. En í mínum huga snýst þetta mál fyrst og fremst um dýravernd.

Mig langar til að inna hv. formann landbúnaðarnefndar eftir því ef hún gæti gefið upp þær upplýsingar, því að þær eru ekki hér, hvorki í nefndaráliti né í annarri umfjöllun sem ég hef séð um málið í landbúnaðarnefnd, hver fjöldi hrossanna er sem fluttur er út á hverju ári frá Íslandi til annarra landa. Það væri fróðlegt að vita það. Ég hef grun um að þau séu ekki talin í hundruðum heldur jafnvel meira en það, en fróðlegt væri að vita hvað þau eru mörg og hvernig sá hópur skiptist, hvert þau fara helst, af því að eins og hefur komið fram í umræðunni, m.a. í máli hv. þm. Önnur Kristínar Gunnarsdóttur, skiptir þetta mjög miklu máli og við látum okkur varða afdrif hrossanna. Við hljótum að gera það, því að við erum ekki bara að flytja út einhverjar skepnur, við erum flytja út íslenska hestinn sem við erum stolt af og við hljótum að bera hag skepnanna fyrir brjósti jafnt hérlendis sem erlendis.

Ég tek því heils hugar undir þær ábendingar sem komið hafa frá héraðsdýralæknum m.a. um að okkur beri skylda til þess að rannsaka hvað verður um hrossin og í raun afdrif þeirra og líkamlegt ástand á erlendri grund til þess í raun að vita hvernig útflutningurinn fer með þau. Það gerist auðvitað ekki nema það sé rannsakað og til þess veitt fjármagn, en ég hefði haldið að hæstv. landbúnaðarráðherra og fleiri áhugamenn um íslenska hestinn hefðu fullan hug á því að fylgja þessum málum betur eftir.

Það eru auðvitað gífurlegir hagsmunir í húfi. Það eru ekki bara fjárhagslegir hagsmunir þeirra sem flytja út hrossin heldur einnig orðspor íslenska hestsins á erlendri grund. En ég veit að þeir sem í þessum sal sitja þurfa svo sem ekki að fá neinar sérstakar predikanir um gildi þess hérlendis eða erlendis. Að sjálfsögðu eru líka miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og þess vegna væri fróðlegt að vita um hvaða fjölda við erum að tala og hvernig það skiptist.

Þá skal þess getið við umræðuna að a.m.k. einn héraðsdýralæknir sem sendi umsögn til nefndarinnar, Björn Steinbjörnsson, héraðsdýralæknir fyrir austan, er alfarið á móti þessari breytingu, segir engin rök hníga til hennar. Annar héraðsdýralæknir, Katrín Andrésdóttir á Suðurlandi, bendir á þá miklu þörf sem er á að rannsaka afdrif hrossanna ef við í raun viljum vita hvað það þýðir eða hvernig það fer með dýrin að flytja þau flugleiðis í flestum tilvikum til útlanda. Aðrar ábendingar hafa svo sem komið fram eins og t.d. frá Sigríði Björnsdóttur, yfirlækni hrossasjúkdóma, um það sem kannski mætti teljast eitthvað sem ætti jafnt við um hross og menn að eftir því sem við eldumst þolum við oftast þvælinginn verr og ég tala nú ekki um að fara í ferðir langar leiðir eða yfir mörg tímabelti. Það á sama við um menn og hross í þeim efnum.

Um leið og ég virði og skil það sem hér hefur verið bent á um tilfinningatengsl mannsins og hestsins, eigandans og hrossins, og að í raun sé, að því er ég hef best skilið á þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag, ekki síst verið að veita heimild sem þessa svo eigendur hestanna fái það tilfinningalega svigrúm sem þeir þurfa að hafa, séu þeir fluttir til útlanda og vilji hafa hrossin sín með. Ég get haft fullan skilning á því, frú forseti, en fyrst og síðast hljótum við að hafa í huga vernd og velferð dýranna sjálfra, vernd og velferð hrossanna, og því tel ég nauðsynlegt að við athugum þetta mál betur þegar fram í sækir og tökum þeim tilmælum sem komið hafa, m.a. hjá héraðsdýralæknum, sem í raun hefur ekki unnist tími til að fara nógu vel yfir í landbúnaðarnefnd. En ég þykist viss um að við getum tekið þetta upp aftur að hausti og rætt betur í nefndinni undir stjórn okkar góða formanns og farið betur yfir dýraverndunarmálin og dýraverndunarhliðina á þessu mikilvæga máli.