Lánasjóður landbúnaðarins

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 16:35:26 (8175)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Lánasjóður landbúnaðarins.

786. mál
[16:35]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrr í vetur, líklega um mánaðamótin febrúar/mars, gerði ég það að umtalsefni úr þessum ræðustóli undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins hversu seint mál frá landbúnaðarráðuneytinu kæmu til þings og taldi upp mál sem kynnt hefðu verið í upphafi vetrar, sérstaklega okkur fulltrúum í landbúnaðarnefnd, og jafnframt að margir fundir hefðu verið felldir niður vegna þess að ekki væru nein mál til að fjalla um og að margir þeir fundir sem haldnir hefðu verið hefðu verið til að fara í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir úti í bæ en ekki til að fjalla um lagafrumvörp frá ráðuneytinu.

Ég rifjaði líka upp vinnubrögðin síðasta vor þegar við fengum stór mál til þings talsvert löngu eftir að frestur til að skila málum var útrunninn, sem er 1. apríl. Ég get nefnt samninga við mjólkurframleiðendur, sem er samningur til sjö ára upp á 4 milljarða í útgjöld á ári. Ég varaði við því að það sama yrði hugsanlega uppi á teningnum í vor. Það reyndist nákvæmlega rétt niðurstaða sem ég hafði komist þar að, því að við fengum inn stór mál löngu eftir að frestur var útrunninn og meðal þeirra er nákvæmlega það mál sem við fjöllum um í dag, þ.e. um Lánasjóð landbúnaðarins.

Það þurfti að taka málið inn með afbrigðum og Samfylkingin samþykkti að hleypa því áfram í þeirri trú að það yrði til þess að málið fengi vandaða umfjöllun og umsagnir héðan og þaðan úr landbúnaðarkerfinu, frá hagsmunaaðilum. En reyndin hefur orðið sú að málið hefur verið keyrt í gegn og nú liggur fyrir nefndarálit, sem ég skrifa að vísu undir, þar sem ég sá að keyra átti málið í gegn hvað sem tautaði og raulaði og ég taldi rétt að reyna að fá fram þær breytingar sem mér sýndust brýnastar og skrifa undir.

Fram hefur komið í umræðunni að hæstv. ráðherra skipaði nefnd til að fara yfir málefni Lánasjóðs landbúnaðarins þann 10. janúar sl. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær sú nefnd skilaði af sér en það kom m.a. fram í máli gesta sem landbúnaðarnefnd fékk til sín að þeir voru orðnir órólegir yfir því hversu seint málið kom til þings því að þeir gerðu sér auðvitað grein fyrir því eins og aðrir að málið þarf að fá vandaða umfjöllun. Tími hefur hins vegar ekki gefist til að senda málið út til umsagnar, heldur komu gestir á fund nefndarinnar og tjáðu sig um málefni sjóðsins auk þess sem við fulltrúar í landbúnaðarnefnd höfum fengið skýrslu í okkar hendur um stöðu sjóðsins.

Það er auðvitað alveg ljóst, frú forseti, að sjóðurinn býr ekki í neinu við aðrar aðstæður en aðrar lánastofnanir hér á landi, eins og t.d. Íbúðalánasjóður, sem hafa þurft að taka lán til lengri tíma og ekki gert sér grein fyrir þeirri þróun sem orðið hefur á lánamarkaði, þ.e. að útlánsvextir mundu lækka jafnmikið og raun ber vitni. Því háttar þannig til að Lánasjóður landbúnaðarins er m.a. með lán til ársins 2024 á miklu hærri vöxtum en gerast á lánamarkaði í dag, þ.e. útlánsvöxtum, en að sjálfsögðu þarf sjóðurinn að lána út með einhverjum lánamun til að hann geti staðið einn og sér, en sú er ekki raunin í dag.

Staðreyndir málsins eru líka þannig að lántakendur hjá sjóðnum geta borgað upp lán sín hvenær sem þeim sýnist án uppgreiðslugjalds, en lán sjóðsins eru öll bundin til lengri tíma og ýmist ekki hægt að greiða þau upp eða það er aðeins hægt með mjög óhagstæðum hætti, þ.e. uppgreiðslugjöldum.

Enn einn þátturinn sem kemur til er samþykkt búnaðarþings í þá veru að bændur vilji ekki lengur greiða búnaðargjald til sjóðsins. Það gjald hefur einmitt byggt upp sjóðinn og verið notað til að greiða niður lán til bænda. Þegar svo er komið er auðvitað ekki margt til ráða. Hitt er svo annað mál að þegar maður stendur í þeim sporum sem við stöndum í núna, þ.e. lánasjóðurinn og við sem höfum með málefni hans að gera og málefni bænda þarf auðvitað að hafa ráðrúm til að skoða hlutina vandlega til að tryggja að þeir sem hafa átt hagsmuna að gæta hjá sjóðnum fari ekki illa út úr breytingunni. Við vitum alveg að svo kann að fara. Það eru mismunandi hagsmunir lántakenda sem þarf að hafa í huga.

Ég ætla að nefna sem dæmi að þegar menn eru að flytja lán úr sjóðnum, þó að þeir þurfi ekki að greiða sjóðnum uppgreiðslugjald, þurfa þeir að borga stimpilgjald af nýjum lánum, hjá nýjum lántakanda. Jafnvel þó að þeir séu að færa af hærri vöxtum yfir á lægri vexti felst umtalsverður kostnaður í að flytja lánin. Sem dæmi get ég nefnt að stimpilgjald af 10 millj. kr. láni nemur 150 þús. kr. í dag. Þetta er þó nokkur biti að kyngja, frú forseti, og nokkuð sem þarf að staðgreiða eftir því sem ég best veit og þá þurfa bændur jafnvel að hækka lán sitt sem þessu nemur.

Þarna hefðum við þurft að hafa ráðrúm til að taka á málum þannig að bændur verði ekki fyrir útgjöldum af þessum sökum.

Ég þekki dæmi um bónda sem var að leita sér að fyrirgreiðslu hjá lánastofnun sinni, banka, og það sem honum stóð til boða hjá viðskiptabanka sínum var lán á 9% vöxtum, verðtryggt. Þetta er dæmi um bónda sem er ekki sérstaklega vel í sveit settur, hann er heldur ekki í neinum afdal en hann býr ekki á svæði sem er í tísku að kaupa jörð á til að leika sér á eða hvað það er sem fólk hefur í huga þegar það er að kaupa jarðir á háu verði og bankarnir meta þannig að hægt sé að lána á lægri vöxtum og betri kjörum en í þessu dæmi.

Við þekkjum líka dæmi um búgreinar sem í gegnum tíðina hafa lent í tímabundnum erfiðleikum. Get ég þar nefnt loðdýrabændur. En þar hefur m.a. Lánasjóður landbúnaðarins komið til og veitt þessum bændum ómetanlega fyrirgreiðslu. Loðdýrabændum búnast vel þessa stundina. En það er margt hverfult í henni veröld og ég tel að það þurfi að tryggja að búgreinar sem slíkar, hvort heldur þessi búgrein eða aðrar sem verða fyrir tímabundnum áföllum — ég get líka nefnt að sauðfjárbændur áttu í miklum erfiðleikum fyrir nokkrum árum og þá kom líka Lánasjóður landbúnaðarins til skjalanna og aðstoðaði þá — bæði búgreinar og bændur sem eru verr í sveit settir en þeir sem fá bestu fyrirgreiðsluna hjá bönkunum þurfa að eiga fyrirgreiðslu vísa á svipuðum kjörum og þeir sem fá góð kjör á hinum almenna lánamarkaði.

Mér fannst ásættanleg niðurstaða og ég skrifaði undir nefndarálitið og er aðili að því í trausti þess að gengið verði til þess verks að Byggðastofnun taki að sér það hlutverk að veita þessum aðilum fyrirgreiðslu þegar eða ef á þarf að halda. Nú vitum við að Byggðastofnun á sjálf í vissum erfiðleikum þannig að það kemur til kasta ríkisvaldsins að sjá til þess að henni sé kleift að sinna þessu hlutverki sínu. Forstjóri Byggðastofnunar og stjórnarformaður komu á fund nefndarinnar og þessir tveir aðilar sáu ekkert því til fyrirstöðu að stofnunin tæki þetta hlutverk að sér. Ég treysti því þá að það verði gengið þannig frá málum að stofnunin geti tekið við.

Frú forseti. Þetta finnst mér höfuðatriði í þessu máli, þ.e. að allir bændur eigi kost á viðunandi fyrirgreiðslu, ekki bara þeir sem búa næst þéttbýli eða á svæðum þar sem jarðir eru í háu verði og bankarnir jafnvel ágirnast jarðirnar.

Það er svo aftur á móti annað mál, frú forseti, að ég er svo sem ekki búin að sjá að það fáist endilega hátt verð fyrir sjóðinn. Það var talað um það hér áðan að hæstv. landbúnaðarráðherra væri að tala sjóðinn dauðan og maður á kannski ekkert að tala í þá veruna. Engu að síður verð ég að segja, frú forseti, að sérhver sem er með lán hjá sjóðnum getur farið til annars lánveitanda þannig að sjóðurinn verður ekki seldur með viðskiptavinum sínum. Það eina sem er tryggt að verður selt eru því skuldirnar því að viðskiptavildin, eða hverju nafni sem við viljum kalla það, er auðvitað bara fyrir hendi svo lengi sem sjóðurinn eða stofnunin býður betur en einhver annar. Þannig er það bara í dag. Fólk leitar þangað sem fyrirgreiðslan er best.

Ég óska þess að gott verð fengist fyrir þessi ímynduðu verðmæti eða kannski raunverulegu þannig að hægt væri að styrkja Lífeyrissjóð bænda vel og dyggilega, en hann mun vera rekinn með miklum halla þessa dagana.

Forsendan fyrir stuðningi mínum við þetta mál eins og það er núna er sem sagt sú að öllum bændum verði tryggð viðunandi fyrirgreiðsla og það er á færi ríkisins að gera það með því að gera t.d. Byggðastofnun það kleift með fjármunum. Byggðastofnun treystir sér til þess og ég held að það væri líka ágætt til þess að styrkja starfsemi þeirrar stofnunar.