Tollalög

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 21:08:36 (8219)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Tollalög.

493. mál
[21:08]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta tiltekna mál. Þó má segja strax í upphafi að það var unnið ágætlega í efnahags- og viðskiptanefnd og farið ágætlega yfir flest ákvæði frumvarpsins og unnið nokkuð vel og ég tel að málið sé mun betra eftir að það kom úr nefndinni en þegar það kom til nefndarinnar.

Það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á er fyrst og fremst það að við vinnslu og meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd kom fram að mikil gjá er milli annars vegar tollyfirvalda, þ.e. þeirra sem hafa með að gera gæslu og umsjón með innflutningi hingað til lands og hins vegar þeirra sem flytja vörur til landsins. Það olli mér og fleirum hv. þingmönnum talsverðum vonbrigðum að átta sig á því að viðhorf þessara aðila hvors til annars er þess eðlis að huga þarf mjög vandlega að þeirri stöðu.

Þeir sem flytja inn vörur til landsins telja að þeir séu allt að því sekir um brot þar til þeim hafi tekist að afsanna það, og þá kannski fyrst og fremst vegna þess að viðhorf ríkisins til þeirra sem flytja vörur inn sé þess eðlis að í rauninni þurfi að endurskoða það frá grunni. Þetta olli mönnum talsverðum vonbrigðum sem voru að vinna í þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd. Reyndar var hugmyndin að leiða þessa aðila saman, þ.e. tollgæsluyfirvöld annars vegar og innflytjendur hins vegar, hins vegar varð ekkert af því. En þetta mál varð tilefni talsverðrar umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd.

Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir erum með sérálit í þessu tiltekna máli og hv. þingmaður gerði ítarlega grein fyrir því sjónarmiði í ræðu sem hún flutti fyrr í umræðunni, þar sem sjónarmið okkar koma fram og einnig það sjónarmið að sú tollastefna sem birtist í þessu lagafrumvarpi er náttúrlega vitaskuld fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og eðlilega þarf hún að bera þá ábyrgð án þess að við í minni hlutanum gerum það einnig þar sem við komum lítið sem ekkert að samningu þessa máls. En ég vil þó segja og segja það hv. þm. Pétri H. Blöndal til hróss að farið var vel yfir þessi mál, farið var vel yfir hvert einasta ákvæði. Dregnar voru saman þær athugasemdir sem skiptu máli og ýmislegt í frumvarpinu var lagfært í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar.

En það breytir ekki hinu að frumvarpið er fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Þar birtist tollastefna ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar og af þeim sökum munum við ekki styðja þetta mál þegar það kemur til afgreiðslu heldur lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og sitja hjá.