Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 14:23:53 (8245)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[14:23]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi síðustu ummæla hv. þingmanns má kannski skilja ræðu hans svo að hann hafi fyrst og fremst verið að kalla eftir sjónarmiðum og ber þá að túlka ýmsar fullyrðingar hans út frá því að hann hafi, svona umræðunnar vegna, viljað vekja athygli á ýmsu.

Varðandi stjórnsýsluna þá vil ég segja, í stuttu máli, að það er verið að einfalda þetta, gera ferlið skýrara með þeim hætti að einn aðili á fyrsta stjórnsýslustigi tekur ákvörðun í málum og síðan eru ákvarðanir kæranlegar til áfrýjunarnefndar eins og áður. Í dag er kerfið þannig að samkeppnisyfirvöld á fyrsta stjórnsýslustigi eru stundum einn aðili, stundum tveir aðilar og úr því hefur orðið til svolítið snúið kerfi sem m.a., eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson bendir á, hefur verið gagnrýnt árum saman af ýmsum samtökum í atvinnulífinu, af fulltrúum þeirra fyrirtækja sem lenda í rannsóknum samkeppnisyfirvalda en ekki síður af fulltrúum kærenda í slíkum málum. Þau sjónarmið eru því löngu þekkt og hafa margoft komið fram.

Það er annað atriði sem ég vil nefna, sem lýtur að því sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefnir varðandi innihald 16. gr. frumvarpsins. Hann saknar þaðan ákvæðis úr 17. gr. núverandi laga. Hv. þingmaður tekur það sem dæmi um þá miklu veikingu sem hann telur að felist í frumvarpinu. Þessi veiking er nú slík að því ákvæði sem vísað hefur verið til hefur aldrei verið beitt frá því samkeppnislög voru sett. Því hefur aldrei verið beitt og má halda því fram með gildum rökum að jafnóljóst og óákveðið ákvæði eins og þar er að finna geti verið mjög erfitt í framkvæmd, enda er það þekkt að þegar lagaheimildir stjórnvalda til að taka íþyngjandi ákvarðanir eru veikar, almennar og óljósar, þá er mjög ólíklegt að þeim verði beitt. Það á að taka út ákvæði af því tagi og er ekki verið að veikja lögin með því. (Forseti hringir.)