Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:43:51 (8253)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:43]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að vísa í álitsgerð lagaprófessorsins Stefáns Más Stefánssonar, sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Varhugavert er að rökstyðja umrætt fullveldisframsal“ — sem hann fullyrðir að sé — „með því að það sé takmarkað við tilteknar aðstæður eins og gert er í fyrirliggjandi álitsgerð. Sé haldið áfram á þeirri braut má segja nákvæmlega það sama um flesta hluta EES-samningsins. Hann má greina í sundur í afmarkaða þætti og draga þannig smám saman vald frá íslenskum dómstólum.“

Hann er með mjög ákveðnar fullyrðingar og mjög eindregin varnaðarorð í okkar garð.

Ég efast ekki um vilja manna í nefndinni til að taka þessum ábendingum mjög alvarlega. Það var gert. Ég tel hins vegar að við séum að gera rangt með því að festa ákvæðið í lög og legg meira að segja mikla áherslu á það.