Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:45:01 (8254)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:45]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði fullkomlega afstöðu hv. þingmanns. Ég bendi hins vegar á að markmiðið með að innleiða þessi ákvæði í íslensk lög er að tryggja samræmda framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins hér á landi og í hinum löndunum. Í því liggja ákveðnir viðskiptalegir hagsmunir að það sé samræmd framkvæmd á EES-svæðinu. Það er af þeim ástæðum sem refirnir eru skornir, ekki vegna þess að menn hafi áhuga á að draga úr úrskurðarvaldi íslenskra dómstóla, langt í frá.

Það er rétt sem kemur fram í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar að varhugavert er að álíta að hér sé um einhverja sjálfvirkni að ræða, þ.e. menn mega ekki líta svo á að við eigum sjálfkrafa að afsala okkur stöðugt meira og meira valdi. Þess vegna verðum við að skoða hvert tilvik fyrir sig, við verðum að taka umræðu hér í þinginu um þetta og vega og meta hvort ástæða sé til að stíga þau skref (Forseti hringir.) hverju sinni sem tekin eru.