Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:47:11 (8256)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:47]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór hér um víðan völl í ræðu sinni, fór yfir nefndarálit 2. minni hluta. Ég verð að segja að mér brá nokkuð við þegar hann velti því upp í ræðu sinni hvort frumvarpið væri samið til höfuðs Samkeppnisstofnun. Þar talaði hann um hefndaraðgerðir vegna olíumálsins svokallaða. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg vangaveltur hv. þingmanns. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram, þetta var einnig rætt við 1. umr.

Ástæða þess að mér finnst þetta óskiljanlegt er í fyrsta lagi að frumvarpið stefnir að því að efla samkeppnisyfirvöld og það er einmitt þvert á orð hv. þingmanns. Það er verið að styrkja samkeppniseftirlitið, veita aukið fjármagn til samkeppnisyfirvalda, auka sjálfstæði þeirra og gera þau betur í stakk búin til að takast á við verkefni sín hratt og örugglega.

Verði þetta frumvarp að lögum er áætlað að fjárframlög aukist um 60 milljónir og að sérfræðingum verði fjölgað um 7, úr 10 í 17. Ef þetta er veiking finnst mér ansi sterkt til orða tekið.

Vegna ræðu hv. þingmanns vil ég líka minna á að það er einmitt verið að taka hér á fjórum af fimm tillögum þeirrar nefndar sem skipuð var um stefnumótun íslensks viðskiptalífs. Það atriði sem var skilið eftir er ákvæðið um húsleit í heimahúsum, sem er ekki inni í frumvarpinu, og það ætti einmitt að vera í takt við skoðanir hv. þingmanns.

Ég vildi bara koma því að að mér finnst mjög alvarlegt að segja að þetta séu hefndaraðgerðir. Ég held að hv. þingmaður verði að rökstyðja það betur.