Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:51:14 (8258)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:51]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmaður virtist aðeins vera að draga í land varðandi lögin sjálf en það þýðir ekki að tala um dæmi úr öðrum málum. Ég vil fá rök varðandi nákvæmlega þetta mál sem hv. þingmaður var að tala um.

Ég vil líka minnast hér í lokin á það að hv. efnahags- og viðskiptanefnd gerði einmitt breytingu á frumvarpinu sem ég tel vera mjög mikilvæga. Hún fjallar um það að ákvarðanir um niðurstöðu skuli bornar undir stjórn, en ekki á frumstigi þannig að stjórnin hefur ekkert um það að segja hvort hefja eigi rannsókn á einstökum málum. Í tilfelli eins og varðandi olíufélögin hefði aldrei verið hægt að stoppa það mál í stjórn. Þetta finnst mér mjög mikilvægt. (Gripið fram í.)

Ég held að menn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þessi stjórn muni koma til með að stoppa slík mál, en ég ítreka bara það að ég hef ekki fengið að heyra rök fyrir því að þetta séu hefndaraðgerðir. Mér finnst mjög alvarlegt að slíku sé haldið hér fram.