Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:52:20 (8259)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:52]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því fer fjarri að ég sé að draga nokkuð úr fyrri ummælum mínum. Við höfum spurt hvað verði um núverandi starfsmenn og núverandi forsvarsmenn stofnunarinnar. Við bíðum eftir því að hæstv. ráðherra svari því. Það sker úr um það á endanum hvort þessar ásakanir eru réttar eða rangar, að sjálfsögðu.

Ég nefndi dæmi annars staðar úr stjórnsýslunni þar sem fólk var beitt hefndaraðgerðum vegna þess sem það hefur gert. Neytendasamtökin, ég minni á það, segja að það þurfi enga stjórn yfir þessa stofnun. Af hverju eru menn að velta því fyrir sér? Jú, í ljósi þeirra tækja sem stjórninni eru fengin í hendur. Hún á t.d. að sjá til þess að gætt sé meðalhófs, nokkuð sem er ekki að finna í núverandi lögum. Hvers vegna er það sett inn?

Auðvitað skoða menn þessi mál í því samhengi sem við erum í. Við erum nýkomin út úr einhverjum stærstu hneykslum síðari tíma viðskiptasögu, (Forseti hringir.) olíusamráðsins, og auðvitað horfa menn til þess sem þar gerðist og til þess sem sagt hefur verið í kjölfarið, (Forseti hringir.) t.d. af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, margra.