Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 15:53:45 (8260)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:53]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Um alllangt skeið hefur almenningur á Íslandi beðið eftir róttækum aðgerðum frá ríkisstjórn Íslands í samkeppnismálum. Skiljanlega hefur gætt mikillar reiði hjá landsmönnum sökum upplýstra mála frá Samkeppnisstofnun og er þar sérstaklega að minnast milljarða króna stulds sem forráðamenn þriggja olíufélaga gerðu sig seka um gagnvart almenningi í landinu á löngu tímabili.

Fleiri mál hafa verið upplýst af hálfu starfandi samkeppnisyfirvalda sem einnig hafa sviðið augu íslenskra neytenda, svo að vægt sé til orða tekið.

Því hefur lengi verið haldið fram að viðskiptalífinu hafi verið litlar sem engar skorður settar á Íslandi, að í okkar litla landi hafi menn getað sölsað undir sig heilu atvinnugreinarnar. Hringamyndanir hafa verið hér áberandi og samráð undirliggjandi í allmörgum greinum íslensks atvinnulífs.

Allir hlutlausir og vel þenkjandi aðilar eru því sammála að á litlum markaði eigi að ríkja öflugar samkeppnisreglur. Það liggur í augum uppi, og er almennt talið að ríkari tilhneiging sé til samráðs á litlum mörkuðum eins og hér á Íslandi. Sagan staðfestir óumdeilanlega þessa fullyrðingu.

Þau eru illa túlkuð, þau rök sem segja mikilvægt að hamla ekki samruna fyrirtækja svo að úr verði félög, betur búin til útrásar á erlenda markaði. Rökin eru illa túlkuð því það getur ekki talist viðunandi að neytendur greiði herkostnaðinn af útrás viðkomandi markaðsrisa með því að una fákeppni heima fyrir. Til viðbótar má einnig nefna gild rök sem segja almenna óhollustu fólgna fyrir félög að þrífast í fákeppni heima fyrir áður en í útrás er haldið. Sem dæmi um þetta má nefna ríkisflugfélög í Evrópu og víðar sem sum hver fóru í hundana eftir að í útrás var farið. Félögin hreinlega kunnu ekki að starfa í öflugri samkeppni og urðu því undir.

Ef atvinnulífið er skoðað af gaumgæfni kemur í ljós hversu mikil þörf er fyrir öflugt samkeppniseftirlit. Þess er að minnast þegar örfáir menn áttu sjávarútvegsfyrirtækið Brim, Landsbanka Íslands, stærsta fiskikvótann, öflugar verksmiðjur og fiskiskipaflota, og einnig heilt flutningafélag sem ber nafnið Eimskip. Á þessum tíma, fyrir nokkrum missirum, var Eimskip einnig stærsti hluthafinn í Flugleiðum.

Einnig voru hlutdeildir hjá hinum sömu í tryggingafyrirtækjum og jafnvel olíufyrirtækjum. Harðlæstur var þessi viðskiptahringur og ekkert var aðhafst sökum smæðar og fjárþurftar hins íslenska samkeppniseftirlits. Í dag horfum við upp á margvíslegar viðskiptahindranir í íslensku viðskiptalífi sem fyrst og síðast bitna á neytendum svo að ekki sé talað um smærri og meðalstór fyrirtæki. Má þar nefna til sögunnar verslun og þjónustu. Bankarnir þrír starfa náið saman og hvergi að mínu viti bólar á raunverulegri samkeppni á bankamarkaði. Saman eiga bankarnir kreditkortafyrirtækin, saman eiga þeir félagið Lánstraust á Íslandi, Reiknistofu bankanna og umfram allt reka bankarnir þrír saman þægilegan félagsskap sem ber heitið Samtök banka og verðbréfafyrirtækja. Svo virðist sem hin pólitíska stofnun Fjármálaeftirlitið, en hún er undir viðskiptaráðherra sett, sé í heilögu ástarsambandi við Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, a.m.k. ef marka má samskipti þessara aðila á undanförnum missirum.

Ekki skal heldur gleyma fjarskiptamarkaði sem mun taka stakkaskiptum eftir sölu Símans og grunnnetsins en að sjálfsögðu kallar aukin einkavæðing á öflugra eftirlit á þessu sviði.

Virðulegur forseti. Dæmin sanna að stórefla þarf samkeppniseftirlit í landinu. Almenningur hrópar á marktækar aðgerðir. Það er einungis eitt sem getur valdið straumhvörfum á þessu sviði og það er virk samkeppni. Virk samkeppni mun ekki líta dagsins ljós eftir þetta duglausa útspil hæstv. viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur.

Undanfarin ár hafa einungis 20 manns starfað hjá Samkeppnisstofnun, og þar af einungis 6–7 sérfræðingar á samkeppnissviði fyrir utan forstöðumann og yfirlögfræðing. Fólk hlýtur að staldra hér við, einungis 6–7 manns hafa sinnt eftirliti á samkeppnissviði til þessa. (Gripið fram í.) Stofnunin hefur verið alvarlega fjársvelt um árabil og í raun ekki getað sinnt eftirliti sem vera skyldi sökum mannfæðar og fjárþurftar.

Í umsögn Samkeppnisstofnunar til efnahags- og viðskiptanefndar um málið segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Takmörkuð fjárráð Samkeppnisstofnunar hafa komið fram í fáliðuðum hópi starfsmanna eins og vikið er að í hjálagðri áætlun en einnig hefur margs konar innra starf stofnunarinnar liðið fyrir fjárskort. Hér skal sérstaklega bent á tækjabúnað, endurmenntun starfsmanna og þátttöku í erlendu og alþjóðlegu samstarfi samkeppnisyfirvalda.“

Enn fremur segir í umsögn Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

„Það skal ítrekað að fjöldi og umfang mála sem hafa verið til meðferðar hjá samkeppnissviði hefur ekki verið í samræmi við þann fjölda starfsmanna sem til umráða hefur verið til að sinna málunum. Á meðan unnið hefur verið að flóknum og umfangsmiklum málum, eins og rannsókn á meintu ólögmætu samráði olíufélaganna og rannsókn á samstarfi tryggingafélaganna, hefur orðið sífellt meiri dráttur á úrlausn annarra mála. Fyrir fimm til sjö árum var algengt að til meðferðar hjá samkeppnissviði væru á hverjum tíma 40–60 mál. Á síðustu missirum hafa óleyst mál til meðferðar hins vegar að jafnaði verið 70–80 talsins.

Langmestur hluti þeirra mála sem til umfjöllunar hafa komið hjá samkeppnissviði byggir á aðsendum erindum frá aðilum á markaði sem telja samkeppnislög hér brotin. Umfangsmestu málin sem til umfjöllunar hafa verið hefur þó verið ráðist í að frumkvæði Samkeppnisstofnunar. Sérstakar athuganir á samkeppni og samkeppnisháttum á einstökum mörkuðum hafa aftur á móti alveg setið á hakanum.“

Aldrei, svo að vitað sé, hefur verið gerð úttekt á skilvirkni Samkeppnisstofnunar í núverandi mynd. Engu að síður er nú með frumvarpi þessu ráðist í einkennilegar stjórnsýslubreytingar sem valda munu miklu róti og sér ekki fyrir endann á. Það er mjög gagnrýnivert að ráðast í stjórnsýslubreytingar af þessu tagi án fyrirliggjandi úttektar á skilvirkni samkeppnisyfirvalda í núverandi formi. Getur verið að sérstaklega vanti stórátak í starfsmannamálum ásamt opnari heimildum samkeppnisyfirvalda til rannsóknar í ólíkum málum? Samkvæmt frumvarpinu mun forstjóri nýrrar stofnunar, sem bera mun heitið Samkeppniseftirlitið, verða háður pólitískt skipaðri stjórn. Starfsmönnum hinnar nýju stofnunar verður gert að bera allar meiri háttar aðgerðir undir þessa sömu stjórn. Án efa mun sjálfstæði viðkomandi forstjóra veikjast til muna við slíkar breytingar. Þetta sjá allir.

Af hverju vill hæstv. viðskiptaráðherra tryggja að stjórn sem hún sjálf mun skipa muni hafa lokaorðið um allar meiri háttar aðgerðir sem Samkeppniseftirlitið vill ráðast í á hverjum og einum tíma? Það er ljóst að vægi stjórnarinnar verður langtum meira en vægi samkeppnisráðs í dag. Með þessu endurspeglast sú staðreynd að sjálfstæði samkeppnisyfirvalda mun veikjast í stað þess að styrkjast. Í þessu endurspeglast einnig sá vilji framkvæmdarvaldsins að geta gripið fram fyrir hendur starfandi eftirlits og þannig tryggt ákveðna vernd fyrir gamla og trausta vini í atvinnulífinu. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Evrópusambandið mælir alls ekki gegn því að einstök ríki hafi strangari reglur í samkeppnislögum. Í raun er ríkjum sjálfrátt gagnvart Evrópurétti að setja sín lög um þessi efni. Bretar ganga til að mynda langtum lengra en við Íslendingar og heimila m.a. símahleranir, eftirför á einstaklinga, húsleit í heimahúsum og margt fleira. Engu að síður er Bretlandsmarkaður margfalt stærri en sá íslenski, en eins og áður hefur verið komið inn á í þessari ræðu er hlutlaust mat almennt á þá leiðina að smærri markaður kalli á öflugra samkeppniseftirlit og rýmri heimildir til aðgerða til þeirra sem fara með rannsóknarvaldið á þessum vettvangi.

Það stingur því óneitanlega í stúf að lagaleg virkni í samkeppniseftirliti sé langtum slakari hér á okkar litla markaði en til að mynda í Bretlandi, en sú þjóð telur a.m.k. 60 milljónir íbúa.

Þannig háttar til að hringanefndin sem hæstv. ráðherra skipaði lagði í tillögum sínum áherslu á að aukin rannsóknarúrræði kæmu til í störfum Samkeppniseftirlitsins. Þær tillögur eru hafðar að engu.

Svo virðist sem hæstv. viðskiptaráðherra sé í varnarhlutverki fyrir atvinnulífið en ekki íslenska neytendur í þessum málum. Engu að síður átti útspil ráðherra að endurspegla aukna neytendavernd. Þingmálin þrjú munu ekki auka neytendavernd í landinu, heldur veikja sjálfstæði og virkni samkeppniseftirlits sem mun á endanum, aftur og aftur, leiða til mikilla fórna sem bitna mun að sjálfsögðu á íslenskum neytendum.

Lykilorðið í umræðunni er orðið samkeppni, að sjálfsögðu. Með virkri samkeppni verða til öflug fyrirtæki. Með fákeppni og máttlausu samkeppniseftirliti er illa farið með fé neytenda heima fyrir og jafnframt er hætt við ofdekri við markaðsrisa sem síðar munu ekki geta sinnt útrásarhugsjónum sínum sökum reynsluleysis af störfum í virkri samkeppni. Öflug og virk samkeppni er öllum til góða, jafnt neytendum sem opinberri stjórnsýslu og síðast en ekki síst sjálfu atvinnulífinu.

Hæstv. ráðherra spilar út skrautspilum á borð við „talsmann neytenda“ en enginn veit hvert vægi hans eða hlutverk verður. Þá spilar ráðherra út nýrri stofnun sem bera mun það trúverðuga heiti Neytendastofa en hún mun annast yfirtöku á starfsemi Löggildingarstofu sem verður samhliða lögð niður. Sú stofnun hefur einnig verið bundin alvarlegu fjársvelti um árabil, eins og ítrekað kom fram í máli starfsmanna Löggildingarstofu sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar um málið.

Virðulegur forseti. Það hlýtur að vera einkennileg stjórnsýsla að blanda saman eftirliti um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins annars vegar og hins vegar eftirliti með rafmagnsöryggi, yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði, það endurspeglar stjórnsýslulegt klúður (Gripið fram í.) í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra. Það kemur fram um talsmann neytenda að embætti hans muni kosta 13 millj. kr. (Gripið fram í.) Engu að síður kemur fram í máli embættismanna frá ráðuneyti að hlutverk talsmanns neytenda eigi að vera að kynna neytendum rétt sinn. Hvernig í ósköpunum á talsmaður neytenda að kynna neytendum rétt sinn þegar hann hefur 13 milljónir til umráða? Þar af eru laun hans svo til helmingurinn. Hvers konar stjórnsýslulegt klúður er hér á ferðinni, virðulegur forseti?

Í umsögn Samkeppnisstofnunar er fjallað um þau markmið sem ríkisstjórnin segist vilja ná með lagabreytingunum, um þær leiðir sem ríkisstjórnin vill fara til að ná þeim markmiðum sem hún setur. Segir m.a. eftirfarandi í álitsgerð Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta:

„Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt.

Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.“

Virðulegur forseti. Hér er um hápólitískt mál að ræða. Umræðan öll og sá skýri klofningur sem er á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu í málinu ítrekar og staðfestir pólitískar áherslur stjórnarliða sem einatt á síðustu árum hafa leitt til misskiptingar og ójöfnuðar í þjóðfélaginu. Það er hægt að stórefla íslenskt atvinnulíf, íslenska nýsköpun og almennt hagvöxt í þessu landi án þess að dekra við markaðsrisana sem jafnan greiða fúlgur fjár inn á reikninga stjórnarflokkanna.

Markaðsrisana má ekki styggja, svo einfalt er það.

Herkostnaðurinn af útrás markaðsrisanna skal vera greiddur af almenningi í formi fákeppni og óvirkrar samkeppni heima fyrir. Sú er stefna stjórnarliðanna. Sjálfur er ég ekki ýkja hrifinn af ríkisafskiptum og er jafnan hlynntur einkavæðingu, svo lengi sem grunnþjónusta og frumburðarréttur landsmanna sé ekki lítilsvirtur eða seldur hæstbjóðanda við annarlegar kringumstæður.

Einkavæðingunni og frjálsum markaði verða að fylgja strangar reglur. Hér aftur á móti er sá rangi kúrs valinn að um lítilsvirðingu er að ræða gagnvart íslenskum neytendum og í raun íslensku atvinnulífi.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins leggst alfarið gegn samþykkt þessa frumvarps.