Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 16:10:44 (8261)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:10]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði: Forstjóri verður háður pólitískt skipaðri stjórn. Nú hef ég farið í gegnum þetta áður í andsvari hér að stjórnin er skipuð til fjögurra ára, þrír menn og þrír til vara, og þetta fólk hefur að sjálfsögðu sínar skoðanir á mönnum og málefnum, eins og annað fólk. Telur hv. þingmaður að forstjórinn sé meira háður þessu fólki en ráðherra sem er pólitískt kjörinn og ræður og rekur forstjórann í dag? Það er þá a.m.k. erfitt að koma stjórninni frá fyrst ef ráðherrann ætlaði að beita sér.

Síðan segir hv. þingmaður: Með virkri samkeppni verða til öflug fyrirtæki. Ég tek hjartanlega undir það. Hvernig stendur þá á því að hv. þingmaður talar alltaf um að fyrirtæki í landinu séu á móti virku samkeppniseftirliti fyrst þau eru svona öflug við að hafa það? Það er mótsögn í þessu.

Síðan segir hv. þingmaður að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að dekra við markaðsrisana sem eru í útrás. Trúir hv. þingmaður þessu virkilega? Trúir hann því að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að dekra við markaðsrisana í útrás með því að veikja samkeppniseftirlitið?

Ég bara spyr: Trúir hv. þingmaður þessu? (Gripið fram í.)