Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 16:13:59 (8263)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:13]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði: Já, að hann trúi því sem hann segir. Nú hefur stundum verið sagt að trúin flytji fjöll, en það er ekki nóg bara að trúa, menn þurfa að sanna svona fullyrðingar. Menn þurfa að færa rök fyrir því og sanna með staðreyndum, ekki bara segja: Staðreyndin er. Það verður ekkert staðreynd við það. Ekki neitt. (Gripið fram í.)

Því miður hef ég gagnrýnt aftur og aftur að þingmenn segja oft í ræðum: Staðreyndin er. Það er eins og allt annað sé ekki staðreynd sem þeir segja.

Varðandi það að rýmka rannsóknarheimildir fór hv. þm. Ögmundur Jónasson ágætlega í gegnum það. Það er framinn einhver glæpur og í kjölfarið kemur löggjafinn og vill þrengja svigrúm einstaklinga, minnka persónufrelsið. Svo er framinn annar glæpur og aftur þrengir löggjafinn að einstaklingnum. Svo er framinn enn einn glæpurinn, t.d. árásin á turnana tvo, og þá á að loka öllum höfnum á Íslandi (Gripið fram í.) í kjölfarið. Alltaf er frelsi einstaklingsins skert meira og meira. Hvar ætlar hv. þingmaður að enda?

Ég tel frelsi einstaklingsins og það að vernda hann fyrir lögregluríkinu meira virði en það að berjast á móti einhverjum glæpum þó að þeir séu alvarlegir. Þetta er nefnilega mjög vandmeðfarið. Hvað ætlum við að ganga langt í því að búa til lögregluríki?