Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 16:15:43 (8264)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[16:15]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir afar einkennilegt við svar hv. þm. Péturs H. Blöndals við spurningu minni, sem var á þá leið hvort hér ætti að rýmka rannsóknarúrræði hjá starfandi samkeppnisyfirvöldum á Íslandi, að hann fer að tala um hryðjuverk í New York sem áttu sér stað árið 2001. (PHB: Líka glæpur.) Með því að opna á rannsóknarheimildir og gefa starfandi samkeppniseftirliti ákveðin verkfæri, (Gripið fram í.) verkfæri sem þau munu aldrei nota (PHB: Nú?) nema alvarlegur grunur sé um eitthvert slæmt siðferði eða jafnvel glæp sé að ræða í viðskiptalífinu.

Þetta er aðvörun, (Gripið fram í.) þetta er fyrst og fremst til að tryggja að menn fari eftir starfandi samkeppnisreglum í landinu.

Hér er búið að einkavæða fyrirtæki, virðulegi forseti, en það er eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins geri sér ekki grein fyrir því að frelsinu fylgir ábyrgð. (PHB: Við … þið …) Það hefur engin ábyrgð fylgt einkavæðingu Sjálfstæðisflokksins og hinum og þessum ríkisstofnunum í gegnum tíðina. Öllu er hleypt út á akurinn, óspenntu, og frumskógarlögmálið skal ráða í einu og öllu á öllum sviðum íslensks samfélags, frelsi einstaklingsins til orða og athafna, og hvað þetta kallast allt saman.

Ekkert mælir á móti því, virðulegur forseti, að við rýmkum rannsóknarheimildir starfandi samkeppnisyfirvalda. Það eru einfaldlega góð skilaboð og neytendum til hagsbóta í þessu landi að svo verði gert. (Gripið fram í.)