Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 17:42:16 (8274)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Ég held að hv. þingmaður viti það alveg eins og við í stjórnarandstöðunni að þetta ákvæði var til staðar og er til staðar í 17. gr. c. Það er einungis verið að setja þetta inn sem einhverja friðþægingu fyrir viðskiptaráðherra um leið og var verið að taka út mikilvæg ákvæði sem nefnd viðskiptaráðherra um viðskiptalífið setti fram en sjálfstæðismenn náðu á brott. Því er verið að reyna að finna eitthvert haldreipi fyrir viðskiptaráðherra til að halda í. Þetta er svona einhver sýndarmennska varðandi það að verið sé að styrkja lögin, sem er auðvitað ekki. Það veit hv. þm. Birgir Ármannsson.

Ég hefði viljað að hann hefði eytt fleiri orðum í 17. gr. c. Það er alveg ljóst að hér er fyrst og fremst verið að ganga erinda stóru viðskiptasamsteypanna með því að fella brott þetta ákvæði. Þetta er ákvæði sem bæði Norðmenn og Bretar hafa verið að styrkja mjög í sinni samkeppnislöggjöf. Þeir telja þetta eitt mikilvægasta ákvæðið í löggjöf sinna þjóða til þess að takast á við brot á samkeppnislögum og fákeppni í atvinnulífinu. Samkeppnisstofnun hefur sett fram í sínu máli að það er enn mikilvægara hér í okkar fámenni og þar sem samþjöppun er mikil að hafa þessi úrræði. Þeir eyða löngu máli í umsögn sinni að skýra það og setja fram rök sem eru fagleg um það hve nauðsynlegt er að hafa þetta inni til þess að þeir geti gegnt sínu hlutverki.

Það er alveg rétt sem Morgunblaðið sagði nýlega, að stjórnmálamenn væru tregir til að ganga þvert á hagsmuni stóru viðskiptasamsteypanna. Það eru hagsmunir þeirra að þetta ákvæði fari út og það er fyrst og fremst þeirra erinda sem sjálfstæðismenn eru að ganga, þ.e. að taka þetta ákvæði út til þess að veikja stöðu Samkeppnisstofnunar til þess að taka á hringamyndun og samþjöppun í íslensku atvinnulífi og hafi þeir skömm fyrir það.