Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 17:52:06 (8279)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:52]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Nú hefur stjórnarandstaðan tjáð sig um þetta mikilvæga mál við 2. umr. og það er óhætt að segja að það hafi ekki margt nýtt komið fram í þeirri umræðu. Ég segi, hæstv. forseti, að þetta ágæta fólk og þessir hv. þingmenn kunna ekki gott að meta þegar verið er að stórauka framlög til samkeppnisyfirvalda um hvorki meira né minna en 60 milljónir þannig að hægt verður að fjölga sérfræðingum sem fjalla um það mikilvæga mál sem er að vinna gegn samkeppnishömlum úr 10 í 17. Þetta er ekki nefnt af þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Samt er búið að halda hér ræður vetur eftir vetur um að það vanti fjármagn til samkeppnisyfirvalda til að þau geti staðið sig í stykkinu. Ég undrast það hversu einsleitur málflutningur hv. þingmanna er og mér finnst hann ekki vera þeim til mikils sóma.

Þetta frumvarp byggir á nefndaráliti eins og allir vita sem kemur frá nefnd sem ég skipaði um stefnumótun íslensks viðskiptalífs. Fjórar af fimm megintillögum nefndarinnar eru í frumvarpinu og það er eingöngu ákvæðið um húsleitina sem ekki er inni. Hvers vegna skyldi það vera? Ég minni á að fyrir u.þ.b. ári svaraði ég fyrirspurn í þinginu um hvort ég teldi að þetta ákvæði ætti erindi inn í samkeppnislög. Ég var ekki sannfærð um það og taldi að ég mundi ekki beita mér fyrir því nema mér væri það skylt samkvæmt tilskipun frá Evrópusambandinu. Ég met mikils friðhelgi heimilisins og fjölskyldunnar. Hverjum dettur í hug að forstjórar fyrirtækja séu það skyni skroppnir að þeir mundu ekki geyma þessi gögn einhvers staðar annars staðar ef þeir vita að hægt er að ráðast inn á heimili þeirra? Ég er ekki að útiloka að þetta verði ekki tekið inn í lög en mér finnst það ekki sjálfsagt, svo mikið er víst.

Því var haldið hér fram að viðskiptaráðuneytið hefði sagt, þegar það kynnti frumvarpið fyrir Samkeppnisstofnun, að ekki yrðu gerðar breytingar á stjórnsýslu stofnunarinnar. Það er bara ekki rétt. Þarna er einhver misskilningur á ferðinni.

Því er haldið fram að þetta frumvarp sé bara bókstaflega hefndaraðgerðir út af olíumálinu. Hvernig geta hv. þingmenn borið þetta á borð? Ég er undrandi. Ekki síst þegar haft er í huga að nefndin sem vinnur í rauninni þær tillögur sem hér er komið fram með er skipuð 27. janúar 2004, hún skilar skýrslu 1. október 2004 og úrskurður samkeppnisráðs vegna olíumálsins er felldur 28. október 2004.

Formaður þeirrar nefndar sem fjallar um þessi mál, þ.e. stefnumótun í íslensku viðskiptalífi, er Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands. Eru hv. þingmenn að halda því fram að þessi maður vinni eins og strengjabrúða í höndum viðskiptaráðherra og komi þá væntanlega bara með álit eins og viðskiptaráðherra hefur pantað? Mér finnst það niðurlægjandi gagnvart þessum virta manni að bera þetta á borð.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði að gerðar hefðu verið grundvallarbreytingar á frumvarpinu eftir að úrskurður samkeppnisráðs hefði verið felldur. Hvaða breytingar voru það? Í fyrsta lagi ákvæðið um húsleitina sem ég var búin að nefna. Í öðru lagi ákvæði um að Samkeppnisstofnun geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum á markaði, í c-lið 17. gr. gildandi laga. Það var tekið út og það er búið að útskýra það heilmikið hér af kollegum mínum í stjórnarflokkunum. Í þriðja lagi er það ákvæði um að stjórnarmenn megi ekki hafa beinna eða verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi. Það er tekið út þar sem það þótti vera of takmarkandi. Í fjórða lagi heimild Samkeppniseftirlits til að fara með mál sem áfrýjunarnefnd hefur úrskurðað um fyrir dómstóla. Það er ekki í samræmi við hefðir okkar að lægra stjórnvald, þ.e. Samkeppniseftirlitið, getið áfrýjað úrskurði hærra setts stjórnvalds og því var þetta tekið út.

Þetta eru þær grundvallarbreytingar sem hv. þingmaður talar um að hafi verið teknar út eftir að úrskurður var felldur í olíumálinu.

Ég vil aðeins rifja hér upp skipunarbréf nefndarinnar margnefndu, með leyfi forseta:

„Samkvæmt skipunarbréfi var nefndinni meðal annars ætlað að taka fyrir hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og með hvaða hætti þróa ætti reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og nyti trausts.

Nefndin fjallaði m.a. um skipulag samkeppnisyfirvalda og hvernig eftirliti með samkeppnishömlum yrði best fyrir komið. Þá ræddi nefndin um heimildir samkeppnisyfirvalda til að bregðast við brotum á samkeppnislögum og aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Nefndin fjallaði einnig um fyrirkomulag rannsókna á samkeppnis- og viðskiptaháttum, eignatengsl fyrirtækja og hringamyndun.“

Helstu niðurstöður nefndarinnar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis eru, með leyfi forseta:

„Að nauðsynlegt sé að efla eftirlit með samkeppnishömlum á markaði. Var það niðurstaða nefndarinnar að þetta yrði m.a. gert með því að gera störf samkeppnisyfirvalda skilvirkari og veita meira fjármagn til þeirra. Jafnframt lagði nefndin til að þau verkefni er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.“

Þetta er sjálfsagt allt saman bara pólitík og kemur ekkert því máli við að það er dósent við Háskóla Íslands, Gylfi Magnússon, sem er formaður fyrir þessari nefnd (Gripið fram í: Ómerkilegt að …) og ber ábyrgð á þessu nefndaráliti. Já, já, það er sjálfsagt ómerkilegt að nefna hver var formaður þessarar nefndar. (Gripið fram í.) Nú líður hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar illa og þá gleðst ég. Þá veit ég að ég er aðeins að koma við þá. (ÖJ: Það er reisn yfir þessari ræðu.)

Það er nefnilega það. Það er búið að tala hér síðan klukkan ellefu í morgun af hálfu stjórnarandstöðunnar og svo ef ég tala og fæ að segja skoðun mína þá er það ekki leyfilegt. Nei, þá er það ómerkilegur málflutningur gagnvart formanni úti í bæ. Er það ekki, hv. þm. Ögmundur Jónasson? Þvílíkt og annað eins.

Ég minnist þess þegar 1. umr. fór fram um samkeppnislagafrumvarpið, þar sem því var haldið fram af stjórnarandstöðunni í hverri ræðunni á fætur annarri að verið væri að veikja samkeppnislögin og samkeppniseftirlitið og þar fram eftir götunum, þá brá ég mér aðeins frá og flutti ávarp á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu. Á þeim fundi talaði m.a. Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann hélt því fram á þeim fundi að það frumvarp sem lægi fyrir þinginu styrkti svo óeðlilega mikið samkeppnislögin og samkeppniseftirlitið að það væri vart verandi á Íslandi í fyrirtækjarekstri.

Þetta kannski sannfærði mig um á þeim drottins degi að ég væri dálítið á réttri leið með þetta mál. Með því að fara einhvern milliveg á milli þess að hlusta á gífuryrðin í stjórnarandstöðunni og þess fulltrúa viðskiptalífsins sem sennilega er átt við þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar um viðskiptasamsteypur og að ég gangi erinda þeirra. Það voru hennar orð áðan. (JóhS: … Jón Ásgeir.)

Einhverjir sögðu áðan að fróðlegt yrði að heyra ræðu ráðherra en ég er því miður hrædd um að það verði ekki mjög fróðlegt því að það er ekkert nýtt að segja. Það er ekkert nýtt að segja frá 1. umr. Sömu vitleysurnar eru bornar hér á borð af hálfu stjórnarandstæðinga og í sjálfu sér er ekki hægt að segja mikið meira um þetta mál en ég ætla þó að fara yfir örfá atriði sem helst eru dregin fram af hálfu stjórnarandstæðinga.

Það er þá fyrst að engin stjórnsýsluúttekt hafi verið gerð á Samkeppnisstofnun og engar röksemdir fyrir breytingum. Þannig er að áður en frumvarpið var sett fram fór ráðuneytið ítarlega yfir núverandi starfsmannahald og verkaskiptingu Samkeppnisstofnunar ásamt fyrirhuguðu skipulagi Samkeppniseftirlitsins og var Samkeppnisstofnun m.a. falið að gera áætlun um starfsmannahald og skipurit fyrir Samkeppniseftirlitið. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Hins vegar hafna ég því sem mér finnst að hafi verið lagt hér til, að Samkeppnisstofnun sem slík eigi að ráða því hvernig löggjafinn gengur frá löggjöf sem varðar þessa stofnun. Það er ekki þannig. Auðvitað koma fram sjónarmið frá stofnuninni, og þau hafa nú heldur betur komið fram, en ekki er þar með sagt að það eigi að ráða ferðinni. Það er ekki þannig sem við vinnum á hv. Alþingi. Það er ekki þannig að Bændasamtökin eða bændur í landinu ákveði nákvæmlega hvernig sú löggjöf lítur út sem varðar bændur eða starfsmenn ríkis og bæja hvernig lög um — þá dettur mér nú í hug BSRB, sem er stundum hér til umræðu — það eru ekki fulltrúar þeirra samtaka sem ákveða starfsmannalögin eða útgerðarmenn lög um fiskveiðistjórn. Við verðum að bera gæfu til þess að horfa aðeins víðar á málin en svo að við hlustum eingöngu á hagsmunaaðila hverju sinni. (Gripið fram í: Það er nú svolítið verið að hlusta á útgerðarmenn.) Það getur verið að það sé skoðun hv. þingmanns.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála hefði sagt að með þessum breytingum væri verið að veikja samkeppnislögin og samkeppniseftirlitið í landinu. Haft hefur verið samband við formanninn og hann kannast ekki við að hafa sagt þetta, hér er því ekki farið með rétt mál.

Eitt af því sem haldið er fram í sambandi við verkefni og hlutverk stjórnar er að minni hæfisskilyrði séu hvað varðar stjórnarmenn í eftirlitinu en nú er. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór yfir þessi mál að einhverju leyti og ég vil halda því til haga. Og vegna þess að því er líka haldið fram að ekki sé miklum erfiðleikum bundið að skipa samkeppnisráð í dag, þá vil ég upplýsa að það hefur verið svolítið mál. Það er ekki einfalt að finna einstaklinga sem ekki eiga einhverra hagsmuna að gæta og þannig mun það eflaust verða áfram. En ekki þýðir að tala um það, við verðum að leysa úr því. Það er hins vegar mjög skýrt eins og hv. þingmenn vita að stjórnarmenn og forstjóri skuli hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega. Þarna verðum við að finna lausnir og vinna málefnalega að hlutum. Ég tel að hv. þingmenn séu að gera þarna allt of mikið úr hlutum sem verður bara að leysa úr á málefnalegan hátt. Þetta held ég að okkur hafi tekist hvað varðar samkeppnisráð og mun eflaust takast líka í sambandi við Samkeppniseftirlitið og þá stjórn sem þar mun sitja og forstjóra.

Síðan er það þetta margumtalaða mál sem varðar c-lið 17. gr. sem felldur er brott. Því er haldið fram að með því sé ekki hægt að berjast gegn hringamyndun.

Ég vil taka fram að mér fannst ekkert sjálfgefið að taka inn í frumvarpið það ákvæði sem nefndin lagði til að gert yrði að lögum og varðar heimild samkeppnisyfirvalda til að brjóta upp fyrirtæki til að breyta atferli og skipulagi hjá aðilum sem brjóta lög. Hins vegar eftir að ég hafði farið yfir það mál og kynnt mér það og kynnt mér hvað aðrar þjóðir eru að gera í því sambandi, ekki síst Evrópusambandið, taldi ég rétt að taka það ákvæði inn.

Það ákvæði sem var tekið út úr 17. gr. er hins vegar ákvæði sem kom inn í meðförum þingsins þegar upphaflega voru sett samkeppnislög og það hefur stundum verið kennt við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og ekkert verra ákvæði fyrir það. En það er hins vegar, eins og hér hefur komið fram, ekki í samræmi við samkeppnisreglur Evrópusambandsins og ef það hefði óbreytt orðið að lögum, ásamt þeim breytingum sem lagðar eru til með 2. mgr. 16. gr. hefði Samkeppniseftirlitið haft víðtækari heimildir hér en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, það er bara þannig. En það segir ekki að okkur hefði ekki verið heimilt að halda því ákvæði inni, okkur var það svo sannarlega heimilt. En við ákváðum að taka það út vegna þess að það kemur inn annað ákvæði í staðinn.

Ég vil spyrja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hvort þeir séu þeirrar skoðunar að heimilt eigi að vera að grípa til slíkra aðgerða, róttækra aðgerða, sem eru þær að breyta atferli eða skipulagi hjá fyrirtækjum án þess að viðkomandi fyrirtæki hafi brotið lög. Finnst hv. þingmönnum það sanngjarnt og eðlilegt? Mér finnst það ekki vera eðlilegt. Mér finnst að þetta séu hörð ákvæði og harðar aðgerðir ef út í slíkt er farið og þá eigi það ekki að vera á grundvelli annars en þess að viðkomandi fyrirtæki hafi brotið lög.

Ég var búin að nefna húsleitarheimildina en ég vil einnig taka fram í því sambandi að það er ekki bara að það orki tvímælis að ganga svo langt gagnvart heimilum og fjölskyldum heldur er hér atriði sem þarf að koma fram að í tillögum nefndarinnar var gert ráð fyrir að það yrði lögregla en ekki samkeppnisyfirvöld sem mundu framkvæma slíka leit.

Nefnd er að störfum á vegum forsætisráðherra sem er að skoða samskipti lögreglu, samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins í refsiréttarlegu tilliti og ekki er útilokað að þegar sú nefnd hefur skilað niðurstöðum, sem verður vonandi síðar á þessu ári, verði þetta tekið til skoðunar. En a.m.k. á meðan ekki hefur fengist niðurstaða í því máli hvað varðar þessi refsiréttarlegu ákvæði er að mínu mati ekki mögulegt að setja ákvæði inn í lögin.

Síðan var það ákvæðið sem varðar að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að leita til dómstóla með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þetta var ég búin að koma inn á.

Það er síðan staða forstjórans, að hann sé ekki jafn vel varinn fyrir pólitískum afskiptum. Þannig er, eins og allir þekkja, að forstjóri Samkeppniseftirlitsins verður skipaður af þriggja manna stjórn. Hann verður ekki ráðherraskipaður eins og er í dag. Ef rétt er að nota þetta orðalag, að vera varinn fyrir pólitískum afskiptum, þá tel ég að ekki sé nokkur vafi á því að forstjóri Samkeppniseftirlitsins yrði betur varinn gagnvart hugsanlegum afskiptum pólitíkusa og ráðherra í hinu nýja fyrirkomulagi en í hinu gamla þar sem forstjórinn er ráðinn af ráðherranum. Það snýr því allt á haus hvað varðar málflutning hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar.

Svo er ég spurð hvort forstjóri Samkeppnisstofnunar verði endurráðinn. Hvernig í ósköpunum á ég að svara því? Þarna er verið að biðja mig að hafa pólitísk afskipti af stofnuninni í öðru orðinu en hinu orðinu ekki. Það snýr því allt á haus hvað varðar málflutning hv. stjórnarandstæðinga. Ég eiginlega undrast það, ég segi það aftur, hvernig þeir geta borið allt það á borð sem hér hefur verið borið á borð á þessum klukkutímum sem liðnir eru af umræðunni og eru nokkuð margir klukkutímar eftir eftir því sem mér sýnist á mælendaskránni.

Ég ætla ekki að fara frekar ofan í hlutverk stjórnar, búið er að gera það ágætlega af öðrum því að það er svo augljóst að hún mun ekki koma að málum nema á lokastigum en ekki hvað varðar hugsanlegar aðgerðir samkeppnisyfirvalda gagnvart fyrirtækjum.

Frumvarpið felur ekki í sér heildarendurskoðun á gildandi samkeppnislögum, eins og komið hefur fram, heldur er einungis verið að ræða breytingar sem varða niðurstöðu þeirrar ágætu nefndar sem ég skipaði og vann ákaflega gott verk.

Ég vil að síðustu segja, hæstv. forseti, að ég er, eins og hér hefur komið fram, mjög ánægð og stolt yfir því að stjórnarflokkarnir hafa náð samstöðu um svo mikilvægt mál eins og þetta mál er og vil nota tækifærið og þakka efnahags- og viðskiptanefnd fyrir mjög gott starf við frumvarpið og lýsi ánægju með þær breytingar sem lagðar eru til af hálfu meiri hlutans. Við erum að skerpa fókusinn, við erum að leggja áherslu á mikilvægasta málið, sem er það að berjast gegn samkeppnishömlum í viðskiptalífinu og það sem er mikilvægt er að við erum að stórauka fjármagn, fjárframlög til eftirlitsins og neytendamála, sem nemur tugum milljóna og þýðir að hægt verður að fjölga sérfræðingum sem vinna að þessum málum úr tíu í sautján. Þar að auki er verið að auka sjálfstæði samkeppnisyfirvalda og það skiptir miklu máli. Það er ekki hægt að halda öðru fram en að verið sé að auka sjálfstæði samkeppnisyfirvalda. Allt það sem heyrst hefur hér í dag um að það sé gagnstætt stenst ekki, enda hafa hv. þingmenn ekki rökstutt það.