Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 18:14:56 (8281)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:14]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu þurfa starfsmenn að sækja um aftur, því það er verið að tala um nýja stofnun sem heitir Samkeppniseftirlit. Ákvæðið sem sett er inn núna af hálfu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er starfsmönnum í hag, það er til þess að þeir þurfi ekki að bíða í óvissu eftir því að verða ráðnir til nýrrar stofnunar að stjórnin fær það hlutverk að ráða starfsmenn, ekki nýja starfsmenn, heldur þá starfsmenn sem starfa hjá Samkeppnisstofnun á nýjan leik hjá Samkeppniseftirlitinu.

Ég sagði að ég teldi mig hafa verið á réttri leið þegar ég hlustaði sama daginn á stjórnarandstöðuna á hv. Alþingi og einn af öflugustu forstjórum okkar í íslensku viðskiptalífi. Þegar öfgarnar eru miklar trúi ég því að einhvers staðar mitt á milli sé sannleikurinn. Það er a.m.k. skoðun okkar framsóknarmanna.