Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 18:31:15 (8295)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:31]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef hlustað á mjög marga í málinu. Ég tel að við höfum vandað okkur við lagasmíðina í viðskiptaráðuneytinu og er, eins og ég sagði áðan, mjög ánægð með útkomuna. Ég er sannfærð um að við erum að gera rétt með því að breyta þessu, með því að skerpa skilin og með því að einblína sérstaklega á mikilvæga þáttinn, sem er eftirlit með samkeppnishömlum. Það er stóra málið. Ég held að við ættum að tala saman eftir eitt ár eða tvö, það á að kjósa eftir tvö ár og þá getur vel verið að við tölum saman aftur, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Þá skulum við fara yfir það hvort þetta hafi ekki verið rétt. Það er eðlilegt að stjórnarandstæðingar hafi efasemdir, það er hlutverk þeirra að gagnrýna og þar fram eftir götunum, en í þessu tilfelli er ég með býsna góða samvisku og trúi því að við séum á réttri leið.