Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 11:27:38 (8310)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:27]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. 1. þm. Norðaust. var á köflum með því betra sem heyrst hefur í umræðunni til þessa. Það var ágæt upprifjun sem hv. þingmaður fór í varðandi tilurð samkeppnislaganna. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að gera athugasemdir við þá lýsingu sem ég hygg að sé raunsönn, sérstaklega hvað það varðar að áherslan var á það við samningu samkeppnislaganna að hafa ekki afskipti af stærð fyrirtækja eða markaðshlutdeild sem slíkri, heldur leggja meginþungann á hegðun fyrirtækjanna, þ.e. að koma í veg fyrir að þau hegðuðu sér með þeim hætti að skaðlegt væri fyrir samkeppni, t.d. með samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, enda eru þetta kjarnagreinar í samkeppnislögunum.

Ég verð hins vegar að vera ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi eftirsjá hans af c-lið 17. gr. núgildandi laga sem fellur út með þessu frumvarpi, nái það fram að ganga. Það geri ég einfaldlega vegna þess að ég get ekki séð að þessi grein færi núverandi samkeppnisyfirvöldum að óbreyttum lögum þau úrræði sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telur. Þetta er almennt orðað ákvæði. Það er óljóst að inntaki. Það er mjög veik heimild til að grípa til íþyngjandi aðgerða. Ég held því að það sé í raun mjög villandi skýring eða lýsing á frumvarpinu að segja að með þeirri lagfæringu að taka út c-lið 17. gr. sé verið að veikja samkeppnislögin.