Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 11:39:21 (8316)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:39]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við stöndum nú í 2. umr. um frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á samkeppnislögum og höfum í sjálfu sér komið víða við. Hér var ítarleg umræða á laugardaginn þar sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar komu víða við í ítarlegum ræðum sínum og það má því segja að margt liggi fyrir sem þarf að svara.

Það má lýsa því þannig að kjarninn í ræðum flestra ef ekki allra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar sem tjáðu sig á laugardaginn hafi verið tvennt. Annars vegar að um væri að ræða veikingu á samkeppnisyfirvöldum og hins vegar veikingu á samkeppnislögum.

Ég verð að lýsa því strax yfir að ég er algerlega ósammála þeirri túlkun og tel að hún styðjist við afar veik rök. Ég held að rétt sé að rifja það upp að markmið þeirra breytinga sem verið er að ráðast í með frumvarpinu er þveröfugt; það er fyrst og fremst verið að vinna að því að efla samkeppniseftirlit í landinu og í því ljósi verður að skoða þessar tillögur.

Þær breytingar sem verið er að leggja til varðandi skipulag og stjórnsýslu samkeppnismála lúta í fyrsta lagi að því að greina á milli þeirra verkefna sem annars vegar snúa að neytendavernd og markaðseftirliti og hins vegar þeim verkefnum sem snúa að hinu beina samkeppniseftirliti. Þessi verkefni hafa til þessa bæði legið hjá Samkeppnisstofnun. Eins og rakið hefur verið á það sér frekar sögulegar rætur frekar en rökrænar en þarna er núna ætlunin að greina á milli.

Samkeppniseftirlitið sjálft verður vistað í nýrri stofnun, Samkeppniseftirlitinu, sem mun hafa vissulega þrengra en um leið skýrara verksvið en núverandi Samkeppnisstofnun. Verið er að taka ákveðna málaflokka frá og flytja til annarrar stofnunar en eftir standa þau verkefni sem snúa að hinu eiginlega samkeppniseftirliti. Hugsunin með breytingunum er sú að sú stofnun sem hefur það verkefni með höndum geti einbeitt sér að því verkefni.

Það er líka verið að gera þarna ákveðnar breytingar sem lúta að stjórnsýslunni með það að markmiði að gera stjórnsýsluna skýrari og einfaldari. Það verður ótvírætt eftir breytinguna að rannsókn mála og afgreiðsla á fyrsta stjórnsýslustigi verður hjá einum aðila, hjá Samkeppniseftirlitinu. Þær ákvarðanir verða síðan auðvitað kæranlegar til næsta stjórnsýslustigs, áfrýjunarnefndar samkeppnismála, í því er ekki breyting. Breytingin felst í því að það er ótvírætt einn aðili sem tekur allar ákvarðanir á fyrsta stjórnsýslustigi en til þessa hefur myndin verið nokkuð flóknari.

Samkvæmt núgildandi lögum ber Samkeppnisstofnun ábyrgð á sumum ákvörðunum á fyrsta stjórnsýslustigi en samkeppnisráð ber ábyrgð á öðrum ákvörðunum.

Í framkvæmd hefur málsmeðferðin í þeim málum sem lúta ákvörðunarvaldi samkeppnisráðs oftar en ekki borið keim af því að fyrst rækju menn mál sín fyrir Samkeppnisstofnun og síðan fyrir samkeppnisráði. Þegar sú niðurstaða væri fengin væri að lokum hægt að fara með mál fyrir áfrýjunarnefnd. Í raun og veru hefur þetta snúið að þeim aðilum sem hafa verið með mál fyrir samkeppnisyfirvöldum að þeir hafa í mörgum tilvikum upplifað það þannig að stigin hafi verið í rauninni þrjú en ekki tvö.

Þetta er mjög skýrt hvað varðar bráðabirgðaákvarðanir stofnunarinnar. Samkeppnisstofnun tekur bráðabirgðaákvörðun, samkeppnisráð fjallar síðan um þá ákvörðun þegar samkeppnisráð kemur næst saman. Síðan eru þær ákvarðanir kæranlegar til áfrýjunarnefndar. Þarna er menn í rauninni að eiga við þrjá stjórnsýsluaðila í þessu sambandi.

Einnig má benda á að sú breyting hefur átt sér stað með nýjum málsmeðferðarreglum hjá samkeppnisyfirvöldum að eftir að Samkeppnisstofnun hefur lokið rannsókn sinni og skilað niðurstöðum sínum til samkeppnisráðs eiga málsaðilar í stærri málum tækifæri til þess að flytja mál sitt beint fyrir samkeppnisráði. Þetta ber líka keim af því að þarna sé um að ræða þrjú stig en ekki tvö.

Það er heldur ekki til þess fallið að gera núverandi skipulag skýrt, einfalt eða aðgengilegt, að stundum starfa samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun eins og um tvo aðskilda aðila innan stjórnsýslunnar væri að ræða en stundum er eins og um einn aðila sé að ræða. Það er ekki einföld mynd sem blasir við þeim sem þurfa að fara með mál fyrir þessa aðila. Stundum eru samkeppnisyfirvöld á fyrsta stjórnsýslustigi tvískipt og stundum er líkt og um eineðli sé að ræða, þegar Samkeppnisstofnun vinnur verkefni fyrir samkeppnisráð. Á þessu er lögð til breyting, til að skýra hlutina og gera þá einfaldari og aðgengilegri, m.a. til að flýta málsmeðferð í gegnum kerfið.

Sú gagnrýni hefur stundum komið fram á málsmeðferð samkeppnisyfirvalda að aðilar vilji gjarnan eiga kost á að koma málum sínum sem fyrst til dóms til að fá endanlega niðurstöðu í mál. Það er m.a. á þeim forsendum að öll helstu samtök fyrirtækjanna í landinu, svo sem Samtök atvinnulífsins, Verslunarráð, Samtök iðnaðarins og Félag íslenskra stórkaupmanna, hafa fagnað þeim skipulagsbreytingum sem lagðar hafa verið til. Mörg þessara samtaka hafa raunar barist fyrir breytingum í þessa átt árum saman. Ég get nefnt sem dæmi skýrslu sem Verslunarráð skilaði árið 1998 og skýrslu sem Samtök atvinnulífsins skiluðu af sér á árinu 2002. Þar voru lagðar til stjórnsýslubreytingar í þessa veru. Svipuð sjónarmið komu líka fram af hálfu talsmanna atvinnulífsins innan nefndar sem fyrrum viðskiptaráðherra skipaði á árinu 1998, sem var að störfum í hartnær tvö ár. Hún lagði til stjórnsýslubreytingar af þessu tagi. Þær rötuðu hins vegar ekki inn í frumvarpið sem varð að lögum á árinu 2000 um breytingar á samkeppnislögunum. En í því nefndarstarfi komu þessi sjónarmið mjög skýrt fram.

Eins og ég gat um í andsvari á laugardaginn ættu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að gæta sín á að gera lítið úr öllum sjónarmiðum atvinnulífsins í þessu sambandi. Samkeppniseftirlit beinist eðli málsins samkvæmt að fyrirtækjunum í landinu en það er ekki þar með sagt að fyrirtækin séu öll í hlutverki sakbornings, það er ekki þannig. Fyrirtækin eru líka kærendur í mjög mörgum tilvikum. Þau þurfa gæta hagsmuna sinna í mörgum tilvikum með því að leita til samkeppnisyfirvalda og vekja athygli á brotum sem þau verða fyrir í samkeppni á markaði. Það er því hæpið fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að ætla að gera lítið úr trúverðugleika hagsmunasamtaka atvinnulífsins í þessu sambandi, með því að segja að þau séu bara fulltrúar þeirra sem óttast að sæta rannsókn.

Það má líka bæta því við að Lögmannafélag Íslands er í meginatriðum jákvætt gagnvart þeim breytingum sem hér eru lagðar til á stjórnsýslu samkeppnismála þótt rétt sé að halda því til haga að Lögmannafélagið gerir athugasemdir við hlutverk eða tilvist stjórnarinnar og telur að það geti flækt málin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að með þeim breytingum sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt til á frumvarpinu verði komið í veg fyrir allar flækjur í því sambandi þannig að menn eiga ekki að hafa áhyggjur af þeim þætti eins og Lögmannafélagið gerði í umsögn sinni. Segja má að komið hafi verið til móts við athugasemdir af því tagi.

Ég hef varið nokkrum tíma í að fjalla um breytingar á stjórnsýslu samkeppnismála og niðurstaða mín er ótvírætt sú að þær breytingar séu til þess fallnar að auka skilvirkni og skýra verksvið samkeppnisyfirvalda. Þær ganga í þá átt að efla samkeppniseftirlit en ekki að draga úr því, eins og háttvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið fram. Auk þess er ástæða til að minna enn og aftur á að samhliða þeim lagabreytingum sem hér er lagt til að gera hafa stjórnvöld, ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, lýst yfir vilja sínum til að verja verulega auknum fjármunum til samkeppniseftirlits með því að verja auknum fjármunum til málaflokksins, um sem nemur tugum milljóna króna, sem gefur Samkeppniseftirlitinu kost á að fjölga þeim sérfræðingum sem starfa á því sviði úr 10 eða 11 í dag í 17 þegar þessu kjörtímabili lýkur.

Ætlunin er að setja aukna fjármuni og aukinn kraft í samkeppniseftirlit og það eru því hreinar öfugmælavísur að halda því fram, eins og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu á laugardaginn, að með þessum stjórnsýslubreytingum sé á einhvern hátt verið að reyna að draga úr, veikja eða jafnvel að lama samkeppnisyfirvöld í landinu. Það bara stenst ekki.

Ég tel ástæðu til að staldra við nokkur önnur atriði í frumvarpinu í máli mínu. Í fyrsta lagi finnst mér mikilvægt að rifja upp nokkur sjónarmið í sambandi við 16. gr. frumvarpsins. Hún er, eins og menn þekkja, að nokkru leyti efnislega samhljóða núverandi 16. gr. en á henni eru gerðar tvær efnislegar breytingar með frumvarpinu. Annars vegar er kveðið á um það með skýrum hætti að ef fyrirtæki brjóti gegn ákvæðum laganna geti Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um skipulagsbreytingar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eins og verið hefur til þessa gefur greinin yfirvöldum heimild til að mæla fyrir um ýmis atriði sem varða atferli og hegðun fyrirtækjanna, svo sem að banna ákveðnar athafnir, gefa út fyrirmæli um að gera eitthvað, setja viðskiptaskilmála eða eitthvað slíkt. Allt þetta verður áfram til staðar. Það verður til staðar eins og verið hefur til þessa.

Það er hins vegar nýmæli að úrræði yfirvalda verða aukin hvað varðar breytingar á skipulagi sem, eins og hefur komið fram í umræðum, felur í sér samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum í samkeppnisrétti að samkeppnisyfirvöld geti gefið fyrirmæli um innra skipulag fyrirtækja, í vægustu tilvikum skipað mönnum að selja hlutabréf í öðrum fyrirtækjum, jafnvel að stofna sjálfstæð félög um tiltekna þætti starfseminnar og jafnvel hreina uppskiptingu fyrirtækjanna þegar lengst er gengið. Með lagabreytingunni sem við leggjum hérna til eru samkeppnisyfirvöldum ótvírætt fengnar þessar heimildir til að bregðast við brotum fyrirtækja á samkeppnislögum.

Þetta er veruleg breyting. Það er auðvitað rétt að geta þess að þessi breyting er að sjálfsögðu ekki óumdeild. Hún hefur m.a. verið gagnrýnd af ýmsum hagsmunasamtökum í atvinnulífinu sem telja að með þessu sé of langt gengið, m.a. út frá sjónarmiðum um meðalhóf og vernd eignarréttarins. Það er líka rétt að fram komi að samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum í evrópskum samkeppnisrétti, bæði landsrétti einstakra ríkja og í samevrópskum reglum, hafa áherslurnar til þessa fremur beinst að því að grípa til aðgerða gegn atferli fyrirtækja frekar en skipulagi þeirra. Það er meginstefið sem við sjáum í hinum evrópska samkeppnisrétti, að menn horfa fremur á atferli fyrirtækja, hvernig þau hegða sér á markaði, frekar en hvort þau eru svo og svo stór.

Hins vegar er það viðurkennt sjónarmið að þegar fyrirtæki eru stór og markaðsráðandi sé ástæða til að fylgjast enn betur með atferli þeirra, fylgjast með því hvort þau hafa með sér samráð og hvort þau misbeiti markaðsráðandi stöðu sinni. Þau viðhorf hafa auðvitað verið rauði þráðurinn í gegnum íslensku samkeppnislögin eins og fram kom í máli okkar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áður.

Í þessu sambandi er jafnframt rétt að halda því til haga að þróun hinna samevrópsku reglna varðandi viðskipti milli landa eru í þá átt að auka heimildir samkeppnisyfirvalda til að hafa afskipti af skipulagi fyrirtækja. Það er rétt að það liggi fyrir. Það er einnig rétt að í einstökum Evrópulöndum er að finna slíkar heimildir sem ganga m.a. út á uppskiptingu fyrirtækja. Því hefur hins vegar verið hafnað í öðrum löndum, þannig að því sé líka til haga haldið. Í löndunum í kringum okkur getum við fundið dæmi um hvort tveggja, bæði strangar reglur á þessu sviði og eins reglur sem ekki ganga eins langt og hér er lagt til.

Víðtækustu reglurnar er trúlega að finna í Bretlandi. Um þær hefur nokkuð verið fjallað, m.a. í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. En annars staðar, t.d. í Noregi, er heimildin til uppskiptingar fyrirtækja alfarið bundin við að samkeppnisyfirvöld séu að bragðast við brotum á þarlendum samkeppnislögum. Það er það sama og við leggjum til hér, sama og t.d. á Írlandi. Þar er miðað við að hægt sé að beita slíkum úrræðum til að bregðast við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Tillögur til lagabreytinga í Þýskalandi sem kynntar voru á síðasta ári ganga út á að heimilt sé að beita skipulagsbreytingum til að bregðast við brotum. Loks má nefna í þessu sambandi að heimildir sem framkvæmdastjórn ESB hefur nýlega fengið, og ESA mun fá í nánustu framtíð, ganga út á að heimild til uppskiptingar fyrirtækja sé bundin við að bregðast við brotum gegn samkeppnisreglum ESB og EES.

Frumvarpið sem við ræðum um hér gerir ráð fyrir sambærilegum ákvæðum og Evrópureglurnar. Sams konar reglur hvað þetta varðar eru svo í Noregi og tillögur uppi um slíkar í Þýskalandi. Það er hins vegar rétt sem komið hefur fram að reglurnar eins og þær liggja fyrir í Bretlandi ganga lengra.

Til að nefna dæmi getum við nefnt að þegar Svíar voru að endurskoða samkeppnislög sín árið 2003 komu upp hugmyndir um að setja inn skýr ákvæði um að þarlend samkeppnisyfirvöld hefðu heimild til að bregðast við brotum og aðstæðum með skipulagsbreytingum. En slíkum reglum var hafnað. Eins og ég segi hafa ýmsar aðferðir verið reyndar í kringum okkur og ef við metum stöðuna í löndunum í kringum okkur, í landsrétti einstakra ríkja, get ég ekki betur séð en að með því að innleiða þá breytingu sem lögð er til í 16. gr. séum við að skipa okkur í hóp þeirra landa sem ganga hvað lengst, ekki allra lengst en við erum meðal þeirra sem ganga hvað lengst varðandi heimildir samkeppnisyfirvalda til að skipta upp fyrirtækjum til að bregðast við brotum.

Áður en ég hverf frá þessu atriði frumvarpsins verð ég að játa að ég hef haft persónulega efasemdir um að við ættum að ganga jafnlangt og gert er í þessu frumvarpi. (JÁ: Af hverju að styðja það þá?) Eftir að hafa farið yfir málið, hv. þm. Jóhann Ársælsson, tel ég unnt að fallast á þessa breytingu. Ég tel það unnt. Það geri ég í ljósi þess að heimildin sem felst í 16. gr. er bundin við þau tilvik er fyrirtæki hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga. Ég tel líka mikilvægt að tryggt sé að þessu úrræði verði ekki beitt nema fyllstu sjónarmiða um meðalhóf sé gætt. Meðalhófsregla er beinlínis skrifuð inn í þetta ákvæði eins og það er lagt fram, og mér finnst það afskaplega mikilvægt í þessu sambandi. (Gripið fram í.)

Í þessu sambandi finnst mér líka rétt að geta þess að samkvæmt breytingartillögu sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt fram varðandi þessar skipulagsbreytingar er sagt að þær komi ekki til framkvæmda fyrr en að lokinni meðferð dómstóla ef aðilar kjósa að skjóta sínum málum þangað. Enda er alveg ljóst að aðgerðir af þessu tagi, skipulagsbreytingar, jafnvel uppskipting fyrirtækja, eru óafturkræfar ráðstafanir. Ef dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að uppskipting fyrirtækis hefði ekki verið nauðsynleg, löngu eftir að hún kæmi til framkvæmda, væri skaðinn í raun skeður. Það er þess vegna mikilvægt réttaröryggissjónarmið sem býr að baki þeirri tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og mikilvægt að hún nái fram að ganga.

Í umræðum á laugardaginn áttu sér stað nokkrar umræður um hvort núverandi 17. gr. hefði að geyma heimild af þessu tagi, þ.e. til uppskiptingar fyrirtækja. Það er auðvitað rétt að það komi fram að þeir sem starfa að samkeppnismálum á vegum Samkeppnisstofnunar eru þeirrar skoðunar að lögin veiti þeim þessa heimild. Það er rétt að halda því til haga. Það er líka rétt að halda því til haga að margir lögfræðingar hafa verið allt annarrar skoðunar. Það hefur ekki reynt á þetta fyrir dómstólum þannig að úr því hefur ekki verið skorið.

Hins vegar verður að hafa í huga, þegar ákvæði c-liðar 17. gr. eru skoðuð að þessu leyti, að það er miklum vafa undirorpið að henni yrði beitt í núverandi mynd, til róttækra eða mjög íþyngjandi aðgerða. Heimildin er afar almennt orðuð og opin og ljóst að ef stjórnvald ætlar að grípa til íþyngjandi aðgerða gegn einkaaðila þá þarf lagaheimildin að vera býsna skýr. Það gerir það að verkum að harla ólíklegt er að núverandi c-lið 17. gr. yrði beitt í framtíðinni eitthvað frekar en honum hefur verið beitt síðustu 12 árin. En eins og komið hefur fram hefur því ákvæði ekki verið beitt.

Nú var því haldið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í mörgum ræðum á laugardaginn að með því að fella niður c-lið 17. gr. væri verið að veikja samkeppnislögin. Þegar spurt hefur verið með hvaða hætti verið sé að veikja lögin með því frumvarpi sem hér er lagt fram þá hefur svarið alltaf verið að verið sé að fella niður c-lið 17. gr. Ég held að það sé eina dæmið, og hv. þingmenn sem hér eru geta leiðrétt mig ef ég fer vitlaust með, sem þeir hafa nefnt um að frumvarpið feli í sér efnislega veikingu frá núgildandi ákvæðum. Þeir hafa vísað til stjórnsýsluþáttarins og við höfum rætt hann áður, en varðandi efnisreglur samkeppnislaganna hygg ég að c-liður 17. gr. sé eina dæmið sem nefnt hefur verið .

Þegar spurt var á laugardaginn hvaða veiking laganna fælist í því að afnema ákvæði sem aldrei hefði verið beitt komu a.m.k. tvívegis ef ekki oftar svör á þá leið að verið væri að draga úr forvarnaáhrifum laganna. Tilvist greinar af þessu tagi, jafnvel þó að henni væri ekki beitt, hefði ákveðin forvarnaáhrif sem gerðu það að verkum að menn á markaði hegðuðu sér skikkanlega. Þetta hljómar allt í lagi en ég efast hins vegar um, ef við skoðum þetta í kjölinn, að það standist. Ég held ekki. Ég held að ef lagaákvæði, reglur laga, eigi að hafa forvarnagildi og koma í veg fyrir að menn hegði sér með einhverjum óskynsamlegum eða óheppilegum hætti verði slík ákvæði að vera harla skýr. Afmarka verður hvaða hegðun það er sem valdið getur afleiðingum sem geta varðað viðurlögum. Það verður að afmarka það. Það er t.d. gert í 10. og 11. gr. sem varða samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þar er lýsing á því sem ekki má samkvæmt lögunum, það er lýsing á hegðun sem menn mega ekki sýna af sér og getur falið í sér viðurlög. 17. gr. er ekki þess eðlis. Hún er almennt orðuð, illa afmörkuð og þar er ekki tilgreind nein hegðun sem menn geta forðast að sýna af sér til að koma í veg fyrir að ákvæði c-liðar 17. gr. fari að virka.

Eina hugsanlega sem hægt væri að segja er að tilvist c-liðar 17. gr. feli í sér áminningu fyrir fyrirtæki um að verða ekki of stór vegna þess að það geti haft í eðli sínu samkeppnishamlandi áhrif. En nú höfum við annað ákvæði í lögunum, 18. gr. sem varðar samruna fyrirtækja, sem tekur á þessu. Þar fer fram tékkið á því hvort fyrirtæki eru að verða of stór eða hvort þau eru að ná markaðsráðandi áhrifum eða auka markaðsráðandi áhrif sín. Það er ekki c-liður 17. gr. sem hefur reynt á í þessu sambandi. Það hefur náttúrlega aldrei reynt á hann en það er ekki hann sem kemur til sögunnar í þessu sambandi. Ég held að meint forvarna- eða varnaðaráhrif þessa ákvæðis séu lítil ef þá nokkur. Ég held að önnur ákvæði frumvarpsins, önnur ákvæði núgildandi laga sem ekki er ætlunin að breyta, geti haft mikil forvarnaáhrif. Við þeim er ekki hróflað en ég held að c-liðurinn skipti ekki máli í þessu sambandi.

Ég held að þetta skipti afskaplega miklu máli þegar við metum þetta og þegar við metum málflutning stjórnarandstöðunnar sem, eins og ég kom inn á í upphafi, gengur allur út á að frumvarpið feli í sér leiðangur um að veikja samkeppnisyfirvöld og veikja samkeppnislögin. Ég tel mig hafa komið inn á það í máli mínu að með þeim breytingum á stjórnsýslunni sem við leggjum til sé verið að styrkja stjórnsýsluna. Það er verið að gera hana skýrari, skilvirkari og markvissari og á sama tíma er verið að verja auknum fjármunum til þessara mála. Það er ekki veiking, það er styrking. Ef stjórnarandstaðan hefur það eitt sér til rökstuðnings varðandi efnishlið frumvarpsins að verið sé að taka út c-liðinn, að með því sé verið að veikja samkeppnislögin á Íslandi, þá er sá málflutningur líka afar hæpinn.

Í frammíkalli minnti hv. þm. Lúðvík Bergvinsson mig á eitt atriði sem ég ætlaði reyndar að koma inn á í andsvörum á laugardaginn. Það varðar þær miklu áhyggjur sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haft í þessari umræðu af því að á einum stað í frumvarpinu og einum stað í greinargerð er vísað til hugtaksins meðalhófs. Það hefur gefið mönnum tilefni til að fara hér á flug í alls konar samsæriskenningum um að nú eigi að slá á puttana á samkeppnisyfirvöldum vegna þess að menn leyfa sér að nefna orðið meðalhóf. Meðalhófsreglan er auðvitað grundvallarregla í íslenskum stjórnsýslurétti. Það er ljóst, bæði samkvæmt stjórnsýslulögum og samkvæmt áratuga lagaframkvæmd á Íslandi að stjórnsýslan verður að gæta meðalhófs í störfum sínum, einkum þegar verið er að taka ákvarðanir sem geta haft íþyngjandi afleiðingar fyrir borgarana. Víða í lögum um stjórnsýsluna er að finna ákvæði þar sem skrifaðar eru inn sérstakar meðalhófsreglur. Þær er að finna í skattalögum, tollalögum, lögum um meðferð opinberra mála og víðar, sérstakar meðalhófsreglur þar sem mönnum finnst ástæða til að árétta að gæta beri hófs við framkvæmd opinbers valds.

Þetta gefur hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar tækifæri til að koma hér upp hvað eftir annað og segja: A-ha, þið ætlið að veikja samkeppnislögin af því að þið ætlið að láta samkeppnisyfirvöld gæta meðalhófs. Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Það er ekki boðlegur málflutningur að þó að sett séu inn ákvæði sem árétta að gæta beri hófsemdar í meðferð opinbers valds, sérstaklega þegar stjórnvöldum er falið verulega íþyngjandi opinbert vald eins og gerist víða í samkeppnislögunum, að ætla þá að draga þá ályktun að með því séu ríkisstjórnarflokkarnir í einhverjum sérstökum hernaði gegn samkeppnisyfirvöldum. Mér finnst það afar langsótt.

Ég ætla, herra forseti, í lok máls míns að víkja örfáum orðum að ákvæðum 27. gr. frumvarpsins. Það er að vonum að sú grein fékk sérstaklega ítarlega skoðun, bæði í hv. utanríkismálanefnd sem hefur haft til meðferðar þingsályktunartillögu um staðfestingu á þeim EES-gerðum sem fela þessa breytingu í sér og eins í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem frumvarpið hefur verið til umræðu. Það er kannski rétt áður en lengra er haldið að rifja upp að fyrir u.þ.b. ári fékk efnahags- og viðskiptanefnd til meðferðar frumvarp frá hæstv. viðskiptaráðherra um breytingu í þessa átt. Það var tekið til ítarlegrar umfjöllunar í nefndinni og nefndin var að lokinni þeirri umfjöllun einhuga um að afgreiða ekki frumvarpið, menn höfðu verulegar áhyggjur af þeim þætti.

Það er hins vegar full ástæða til að geta þess að frumvarpið var, eins og það lá fyrir á síðasta vori, með einum mjög veigamiklum hætti frábrugðið því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Það gekk miklu lengra að einu mikilvægu leyti. (Gripið fram í.) Það er, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, annað mál, ég er ekki að fjalla um það. Í frumvarpinu sem viðskiptaráðherra lagði fyrir þingið á síðasta vetri og ætlað var að innleiða þau ákvæði sem hér um ræðir varðandi bindingu dómstóla við niðurstöður evrópskra stofnana, var notað orðalagið:

„Dómstóll skal ekki heldur kveða upp dóm sem er í andstöðu við fyrirhugaða ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar í sams konar máli. Dómstóll getur frestað málsmeðferð sinni þar til eftirlitsstofnunin hefur tekið ákvörðun …“ o.s.frv.

Í gamla frumvarpinu var talað um „í sams konar máli“. Nú er það alveg skýrt í frumvarpinu sem við erum að fjalla um að aðeins er verið að ræða um sama mál, þ.e. ef sú staða kemur upp að mál sem varðar brot á samkeppnisreglum EES-samningsins kemur upp á sama tíma bæði hjá Eftirlitsstofnun EFTA og hjá innlendum dómstóli, þá felur 27. gr. í sér að innlendi dómstóllinn verður annaðhvort bundinn við niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA eða ber að bíða eftir niðurstöðu hans. Það er kjarninn í greininni.

Það er alveg rétt að þarna er með nýjum hætti verið að binda hendur íslenskra dómstóla. Fram hjá því verður ekki litið og í álitsgerð Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors, sem utanríkisráðherra lét vinna í þessu máli, er ítarlega fjallað um það. Þarna er verið að binda hendur íslenskra dómstóla með nýjum hætti. Menn geta deilt um hvort verið er að binda hendur þeirra frekar en nú er eða hvort þetta framsal dómsvalds, ef við viljum kalla það svo, er meira samkvæmt þessu ákvæði en ýmsum öðrum alþjóðlegum skuldbindingum sem Íslendingar hafa undirgengist. Ég hef reyndar efasemdir um að verið sé að ganga að því leyti lengra vegna þess að ég held að íslenskir dómstólar séu á margan hátt efnislega bundnir í meira mæli af ýmsum öðrum alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum undirgengist.

Formlega séð er þetta hins vegar ný aðferð eða ný nálgun og það hefur auðvitað valdið því að mönnum hefur þótt langt frá því sjálfgefið að fallast á þessar tillögur. Sjálfur hef ég haft töluverðar áhyggjur af þessu og þess vegna farið ítarlega yfir rökstuðning með og móti þeirri niðurstöðu sem birtist í þessu frumvarpi. Ég held hins vegar að þegar við skoðum þetta ákvæði og veltum fyrir okkur að hvaða leyti það er bindandi, þ.e. hvaða efnisinnihald er í þessu, þá sjáum við að þetta er ekki mjög íþyngjandi breyting. Þarna er um að ræða að til að þetta ákvæði virki þurfa mjög þröng skilyrði að vera fyrir hendi. Það þarf að vera um að ræða sama mál með sama sakarefni og sömu málsaðilum til meðferðar á sama tíma, annars vegar hjá innlendum dómstóli og hins vegar hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Það er ólíklegt að það gerist.

Það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi að samkvæmt núgildandi reglum gætu þau mál sem hér um ræðir, mál sem varða brot á samkeppnisreglum EES-samningsins, farið í gegnum allt hið evrópska kerfi, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn og niðurstaða hans orðið aðfararhæf hér á landi án nokkurs atbeina innlends dómstóls. Breytingin eins og hún liggur hér fyrir gerir því ráð fyrir að lögsaga innlendra dómstóla í málum af þessu tagi sé frekar víkkuð út í heildina en dregin til baka varðandi þau tilteknu þröngu tilvik þegar mál er til meðferðar á báðum stöðum í einu. Þess vegna má segja að það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af efnisinnihaldinu eða efnishlið málsins þó að hin formlega binding sem felst í ákvæðinu sé vissulega á skjön við þá hugsun sem ég og fleiri hafa um fullveldi innlendra aðila. En þetta er ekki efnislega þáttur sem við þurfum að hafa miklar áhyggjur af.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi, þegar við erum að reyna að meta umfang þess hversu mikið framsal felst í þessu ákvæði, að þegar Norðmenn afgreiddu sams konar breytingu með þessum hætti á síðasta ári — þeir eru auðvitað í sömu stöðu gagnvart Evrópusamvinnunni og við, þeir afgreiddu þetta á síðasta ári — þá var í meðförum norska þingsins litið á þetta sem minni háttar framsal á valdi, ekki meiri háttar framsal heldur minni háttar framsal á valdi. Það ræðst af því að samkvæmt norsku stjórnarskránni er þinginu heimilað með lögum að framselja vald til alþjóðlegra eða yfirþjóðlegra stofnana. Ef um verulegt framsal er að ræða er nauðsynlegt að málið fái meðferð í þinginu með verulega auknum meiri hluta en ekki var litið svo á í þessu máli heldur einungis miðað við venjulegan hreinan meiri hluta.

Allt finnst mér þetta nú gefa tilefni til þess að meta þetta mál svo að við þurfum ekki að hafa þungar áhyggjur af efnisinnihaldi þess, þó að ég skilji og hafi vissulega samúð með sjónarmiðum manna eins og hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar sem talað hafa við þessa umræðu og lýst verulegum áhyggjum af þessu. Þessir hv. þingmenn, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, hafa verið sjálfum sér samkvæmir í því í langan tíma og þeir flokkar sem þeir hafa verið í hér í þinginu og sá sem þeir eru nú í hafa jafnan haft mikla fyrirvara á þátttöku Íslands í ýmsu alþjóðlegu samstarfi og hafa jafnan talað hávært um fullveldisframsal og framsal til erlends valds þegar Ísland hefur gengið í alþjóðasamtök eða tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi með ýmsum hætti. Þeirra afstaða er þekkt í þessu. Hún er skiljanleg. Ég er ekki sammála henni í þessu tilviki en afstaða þeirra er skiljanleg.

Mér finnst hins vegar erfiðara að átta mig á afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli sem hefur óskaplega miklar áhyggjur, að því er virðist, af því að þarna sé verið að framselja hugsanlega örlítið brot dómstólavaldsins í tilteknum þröngum tilvikum en virðist engar áhyggjur hafa af því fullveldisframsali sem felst í því að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu, virðist engar áhyggjur hafa af því. Þeir menn sem telja að við eigum að vera, eins og hv. þm. Björgvin Sigurðsson sagði í morgun „fullir þátttakendur í Evrópusambandinu“, hafa óskaplegar áhyggjur af því að við framseljum vald að þessu litla leyti. Mér finnst sú afstaða mjög torskilin. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því að menn séu andvígir því að Alþingi afgreiði lög sem fela í sér smávægilegt framsal á mjög þröngu sviði sem ólíklegt er að reyni nokkru sinni á en eru svo tilbúnir til þess að ganga í Evrópusambandið og taka á sig allar þær fullveldisfrelsisskerðingar sem því fylgja. Mér finnst erfitt að átta mig á þeirri afstöðu manna.

Herra forseti. Það eru fleiri atriði sem hugsanlega væri tilefni til þess að koma inn í við þessa umræðu en ég held að við höfum snert við fleiri málum hér í andsvörum og svörum á laugardaginn. Eins getum við komið inn í fleiri þætti að þessu leyti nú síðar í umræðunni og vera kann að ég komi betur inn á það í síðari ræðu minni. En niðurstaða mín er sem sagt með öðrum orðum sú að málflutningur stjórnarandstöðunnar um að frumvarpið sem við erum hér að fjalla um feli í sér veikingu samkeppnisyfirvalda og veikingu samkeppnislaga, að þessar fullyrðingar eigi ekki með neinum hætti við rök að styðjast.