Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 12:25:15 (8320)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:25]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vekur óneitanlega athygli að hjá nefndinni sem undirbjó þetta mál og í fyrstu drögum þessa frumvarps var gert ráð fyrir húsleitarheimildum hjá forstjórum fyrirtækja. Nú hefur stjórnarliðið tekið þessar heimildir út úr frumvarpinu og ég vil inna þingmanninn eftir afstöðu hans til þess. Nú hefur þetta úrræði reynst vel í Noregi og einkennilegt að það skuli hafa verið tekið út. Ég held að afstaða manna til þessa frumvarps taki kannski nokkurt mið af afstöðu þeirra til þeirra aðgerða sem gripið var til gagnvart olíufélögunum. Þannig höfum við séð að talsmenn atvinnulífsins fagna þessari veikingu á Samkeppnisstofnun og samkeppnislögunum, en þeir hinir sömu talsmenn töldu að meðalhóf hefði verið brotið í aðgerðunum gegn olíufélögunum. Ég held að það væri forvitnilegt að heyra hvaða sjónarmið hv. þingmaður hafði um þær aðgerðir á sínum tíma, hvort honum þótti of langt gengið þar og hvort þeim sjálfstæðismönnum hefði þótt óheppilegt ef Samkeppnisstofnun hefði haft húsleitarheimild hjá forstjórum olíufyrirtækjanna og þá hvers vegna.