Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 12:26:25 (8321)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:26]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi meginspurningu hv. þm. Helga Hjörvars um afstöðu mína til húsleitarheimilda á heimilum stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja þá er ég í grundvallaratriðum sammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hér á laugardaginn þegar hann varaði eindregið við úrræðum af þessu tagi sem gengju mjög nærri friðhelgi einkalífsins og ekki bara einkalífi þeirra stjórnenda fyrirtækja sem hér um ræðir heldur einnig aðstandenda þeirra. Ég hef því mikinn fyrirvara gagnvart tillögum af þessu tagi.

Varðandi tilvísun hv. þingmanns til olíumálsins, sem hefur nú reyndar borið nokkuð á góma í þessari umræðu, er vert að minna á að í olíumálinu svokallaða reyndi á ákvæði þessara laga um samráð sem ekki er verið að hrófla neitt við í þessu frumvarpi. Það er ekki verið að breyta neinu um það. Það er ekki verið að draga á neinn hátt hvorki úr banni við samráði né viðurlögum. Það er reyndar ekki komið inn á það. En það eru engin áform um það að draga neitt úr viðurlögum við brotum af því tagi. Tilvísun manna til olíumálsins í þessu sambandi er því svona til hliðar við kjarna málsins, skiptir ekki máli. Það eru svona pólitískar keilur sem einhverjir menn eru að reyna að slá í því sambandi en snerta kjarna þessa frumvarps ekki á neinn hátt.

Varðandi samkeppnisyfirvöldin þá er ljóst að með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til, bæði hvað varðar stjórnsýsluna og eins með því aukna fjármagni sem á að verja til þessa málaflokks, verða samkeppnisyfirvöld á Íslandi enn betur til þess búin að bregðast við alvarlegum brotum eins og samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu en verið hefur.