Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 12:31:10 (8324)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:31]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um að verið væri að styrkja samkeppnisyfirvöld með þessum hætti. Ég velti alvarlega fyrir mér stjórnsýslulegri stöðu hinnar nýju stofnunar, ef af verður.

Í 6. gr. er lagt til að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli ráðinn af stjórn stofnunarinnar og stjórn stofnunarinnar ákveði starfskjör forstjóra. Nú er þetta A-hluta stofnun á vegum ríkisins og lýtur lögum þar um, m.a. lögum um fjárreiður ríkisins. Þá veltir maður fyrir sér hvort það veiki ekki stöðu stofnunarinnar að forstjórinn skuli ekki njóta sömu starfskjara, þeirrar starfsverndar sem stéttarfélög á þessum vettvangi hafa samið um og starfað hefur verið eftir árum saman.

Ég vil vekja athygli hér á umsögn t.d. frá Lögmannafélagi Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Laganefndin bendir á að fullnægjandi kann að vera að hafa einvörðungu forstjóra sem ber ábyrgð á ákvarðanatöku Samkeppniseftirlitsins. Ekki verður að séð að það aukalag sem til verður með því að skapa sérstaka stjórn sé nauðsynlegt, en það gæti hins vegar verið til þess fallið að flækja málsmeðferð og draga úr skilvirkni.“

Lögmannafélagið er ábyggilega ekki að segja þetta út í bláinn, herra forseti. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Er ekki einmitt verið að veikja stöðu forstöðumannsins, eins og Lögmannafélagið bendir að mínu viti réttilega á?