Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 16:24:20 (8346)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[16:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, frá hv. meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem er að finna á þskj. 1291.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn gesti eins og getið er um á fyrrnefndu nefndaráliti og hún hefur rætt þetta mál samhliða umfjöllun um mál 590 sem við vorum að ljúka rétt áðan, frú forseti, og mál 592 sem er frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda sem er næsta mál á dagskrá.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Það er sá hluti gildandi samkeppnislaga sem klofinn er frá öðru samkeppniseftirliti samkvæmt framangreindum frumvörpum sem byggjast á niðurstöðum nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi. Megintilgangur frumvarpsins er að efla neytendavernd með því gera ákvæði laganna skýrari og efla eftirlit. Flest ákvæði frumvarpsins er nú að finna í VI. og VII. kafla samkeppnislaga og því er fáar nýjungar að finna í efnisákvæðum þess. Þar eru aftur á móti lagðar til breytingar varðandi eftirlit og stjórnsýslu, en eftirlit er falið Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála.

Meiri hlutinn leggur til að orðunum „reglum og“ verði bætt inn í d-lið 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins um við hvaða brotum megi leggja á sektir og að við frumvarpið bætist ný grein þar sem kveðið verði á um að ákvörðun Neytendastofu verði ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir. Er það til samræmis við gildandi rétt.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Una María Óskarsdóttir og Gunnar Birgisson.