Álbræðsla á Grundartanga

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 18:06:44 (8365)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[18:06]

Frsm. iðnn. (Kjartan Ólafsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Í nefndaráliti er fjallað um stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga og álagningu fasteignagjalda vegna stækkunarinnar. Þar segir:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Andrés Svanbjörnsson frá iðnaðarráðuneyti og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Samtökum sveitarfélaga.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á álagningargrunni fasteignaskatts vegna stækkunar á álbræðslu Norðuráls á Grundartanga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Einar Már Sigurðarson, Sigurjón Þórðarson, Bjarni Benediktsson og Dagný Jónsdóttir.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu snýst málið um að stækka verksmiðjuna á Grundartanga og ákveðið, með þeim lögum sem hér er lagt til að verði samþykkt, að skiptingin verði á þann hátt sem fram kemur í frumvarpinu.