Virðisaukaskattur o.fl.

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 18:13:33 (8368)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[18:13]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efnahags- og viðskiptanefnd á þskj. 1350, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og fleiri lögum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti sem getið er um í nefndarálitinu.

Í frumvarpi þessu er lögð til tímabundin lækkun gjalda fyrir innflutning vetnisbifreiða og sérhæfðra varahluta. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar að bifreiðarnar sem um ræðir eru gríðarlega dýrar í framleiðslu og að þær munu þess vegna eingöngu nýtast til tilrauna næstu árin eða áratugina. Tilgangurinn er sá að gera skatta- og tollaumhverfi hér hagstæðara fyrir slíkar tilraunabifreiðar en bifreiðar almennt.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu eftir nákvæma skoðun.

1. Heimilt verði að fella niður eða endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í stað tveggja þriðju hluta svo sem lagt er til í frumvarpinu. Nefndin leggur þessa breytingu til þar sem hún telur mikilvægt að skattaumhverfi hérlendis verði sem hagkvæmast fyrir rannsóknir á þessu sviði svo þær eflist og styrkist. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar um málið að þær tilraunabifreiðar sem um ræðir eru gríðarlega dýrar og ólíklegt að nema örfáar slíkar verði fluttar hingað næstu árin. Tekjumissir ríkisins við þessa breytingu er því óverulegur.

2. Nýtt ákvæði bætist við II. kafla frumvarpsins þess efnis að lækkun vörugjalds af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, svokölluðum tvíorkubifreiðum, verði 240.000 kr. en lækkunin er 120.000 kr. samkvæmt gildandi lögum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 1351.

Hv. þm. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara og Una María Óskarsdóttir og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.

Ég vil geta þess að í umfjöllun nefndarinnar um þá tilraunastarfsemi sem á sér stað við að innleiða vetni sem orkugjafa eða orkugeymslu fyrir bifreiðar kom fram sterkur vilji nefndarmanna til þess að þær tilraunir gætu gengið fram án þess að ríkið legði stein í götu þeirra. Enn fremur var víkkuð út og hækkuð endurgreiðsla á vörugjöldum vegna bifreiða sem nýta metangas og rafmagn að verulegu leyti. Þetta er hvort tveggja gert í þeim tilgangi að hjálpa til við tilraunir og rannsóknir sem stuðla að því að bifreiðar mengi minna, þ.e. að auka veg bifreiða sem nota orku sem ekki veldur koltvíoxíðmengun, sem menn óttast að valdi hitnun á jörðinni.