Samkeppnislög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 10:50:37 (8516)


131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[10:50]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um þetta frumvarp er mikill ágreiningur, bæði innan þings og utan. Sá ágreiningur er að sjálfsögðu fyrst og fremst efnislegur og lýtur að þeim lagabreytingum sem verið er að gera á sviði samkeppnismála og eftirlits með markaði en þetta frumvarp og tvö önnur til viðbótar fela í sér gagngera uppstokkun á lagaumhverfi og skipulagsformi í þeim geira.

Gagnrýnin lýtur líka að vinnubrögðum. Hún hefur komið frá Neytendasamtökum og frá verkalýðshreyfingunni en þessir aðilar hafa hvatt til þess að þessi mál yrðu ekki afgreidd að svo stöddu, heldur leitað eftir breiðu samkomulagi um lagabreytingar sem kunna að vera nauðsynlegar.

Þá hafa komið fram ásakanir um að ríkisstjórnin sé að refsa samkeppnisyfirvöldum fyrir framgöngu þeirra í umdeildum málum á sviði olíusamráðs og annarra mála. Ég tek undir það sem hefur komið fram á þinginu að það verður að sjálfsögðu fylgst grannt með hverju skrefi sem stigið verður í þessum málum.