Samkeppnislög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 10:53:54 (8518)


131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[10:53]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæða eitthvert merkasta mál þessa þings. Ákvörðunarvald í samkeppnismálum er í raun fært frá fimm manna pólitískt skipuðu ráði, samkeppnisráði, til sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, Samkeppniseftirlitsins. Auk þess eru fjárframlög til málaflokksins aukin verulega.

Stjórnarandstaðan hefur því miður lagst mjög lágt í málflutningi sínum í sambandi við þetta mál. Því hefur m.a. verið haldið fram að hér sé um hefndaraðgerðir að ræða gagnvart Samkeppnisstofnun vegna olíumálsins. Í því sambandi vil ég rifja upp að við upphaf þess máls í desember 2001 er haft eftir mér í einu dagblaðanna, með leyfi forseta: „Heppileg aðgerð og hörð.“ Auk þess má geta þess að ég hafnaði beiðni Verslunarráðsins um að hafa afskipti af málinu og rannsaka aðgerðir Samkeppnisstofnunar eins og farið var fram á. Í umræðunni hefur öllu verið snúið á haus.

Ég segi eins og oft á við: Sá hlær best sem síðast hlær.