Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:10:59 (262)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Ályktun ASÍ um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:10]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég er ósammála því sem kemur fram í þessari ályktun. Ég hyggst hins vegar eiga fund með forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á næstunni til að fara yfir þessi mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að fjárlagafrumvarpið er með ágætum afgangi og að þar eru aukin útgjöld til margvíslegra velferðarmála.

Það er jafnframt ljóst að fyrirhugaðar skattalækkanir munu auka kaupmátt verulega og hafa góð áhrif á kaupmátt einstaklinga. Hins vegar hafa þær ekki verið nákvæmlega útfærðar. Það hefur t.d. ekki verið endanlega ákveðið hversu mikið barnabætur verða hækkaðar og hvernig útfærslan verður í því sambandi. Fyrr en það liggur fyrir er ekki hægt að fullyrða um áhrif skattalagabreytinganna á kaupmátt einstaklinga og ákveðinna fjölskyldustærða. Því er of snemmt að spá fyrir um það.

Það er sjálfsagt að fara yfir málin með forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar en það er af og frá að fjárlagafrumvarpið og fyrirhugaðar skattalækkanir setji forsendur kjarasamninga í uppnám.