Norsk-íslenski síldarstofninn

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:19:19 (268)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Norsk-íslenski síldarstofninn.

[15:19]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það eru ánægjuleg tíðindi að norsk-íslenska síldin skuli veiðast innan íslensku efnahagslögsögunnar og mun styrkja stöðu okkar í þeim samningaviðræðum sem fram fara um skiptingu á afla úr þeim stofni. Það er nauðsynlegt eins og fram hefur komið að rannsakað sé vel og gaumgæfilega hvernig þessum málum er háttað, greint sé á milli þeirra tveggja stofna sem virðast vera í bland í veiðunum núna, annars vegar norsk-íslenska síldin og hins vegar íslenska sumargotssíldin.

Ég hef farið yfir þessi mál með forsvarsmönnum Hafrannsóknastofnunar og einnig átt viðræður við forsvarsmenn hagsmunaaðila um hvernig best sé að haga málum og sé ekki betur en að við getum gert það sem nauðsynlegt er til þess að ganga úr skugga um þá hluti sem við þurfum að vita af þessu tilefni. Mér vitanlega hafa ekki komið upp neinir hlutir í þessu sambandi sem fjárskortur ætti að hamla. Ég held að þingmenn þurfi ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því að ekki verði hægt að sinna rannsóknunum eins og nauðsynlegt er fremur en öðrum þeim rannsóknum sem Hafrannsóknastofnun sinnir.