Norsk-íslenski síldarstofninn

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:20:40 (269)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Norsk-íslenski síldarstofninn.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að menn eru meðvitaðir um þetta í sjávarútvegsráðuneytinu, en ég heyrði einn helsta síldarspekúlant og sérfræðing okkar eftir að Jakob Jakobsson lét af störfum tjá sig í útvarpinu á dögunum. Þar gat ég ekki betur heyrt en viðkomandi aðili, Hjálmar Vilhjálmsson, teldi að hér væri svo stórt mál á ferð að nauðsynlegt væri að gera út sérstakan leiðangur til rannsókna og mælinga á síldinni sem þarna á í hlut. Mér vitanlega er slíkur leiðangur ekki á döfinni hjá Hafrannsóknastofnun fyrr en hægt verður að kíkja á þetta í tengslum við loðnurannsóknir í nóvember.

Ég held að við eigum að undirstrika mikilvægi málsins með því að grípa til sérstakra ráðstafana og sýna m.a. þannig Norðmönnum hversu mikilvægt við teljum málið vera. Nú eru vísbendingar uppi um að gríðarsterkir árgangar eru að koma upp í síldinni í Barentshafi og ef fullorðna síldin er að taka upp fyrri hegðun sína og hafa að hluta til vetursetu á Íslandsmiðum er það stórt og mikilvægt innlegg bæði í samningsstöðuna og líka líffræðilega út frá því sem er að gerast í vistkerfinu. Mér finnst að við eigum að undirstrika af okkar hálfu hversu mikilvægt við teljum málið vera, m.a. með því að gera út sérstakan leiðangur.