Norsk-íslenski síldarstofninn

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:22:31 (271)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Norsk-íslenski síldarstofninn.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Já, enda séu menn þá sammála um hvað sé lágmark að gert verði, hæstv. ráðherra. Ég fékk ekki endanleg svör við því ef það verður mat manna að tilefni sé til að gera út sérstakan leiðangur hvort það verði gert eða t.d. í samráði við eitt eða fleiri af veiðiskipunum um mannafla með vísindamönnum þannig að út úr því komi svipaðir hlutir. Nú er ekkert víst að þetta ástand vari mjög lengi og alveg óvíst að menn gangi að henni þarna í nóvembermánuði. Ég minni á hversu gríðarlega miklir hagsmunir eru í húfi ef vel tekst til og veiðar úr norsk-íslensku síldinni geta stóraukist á komandi árum. Vaxandi hlutfall þeirra veiða fer til manneldis. Þá er um að ræða milljarða á milljarða ofan sem við getum aukið verðmæti á nýtingu þessa eina stofns sem var, eins og kunnugt er þegar hann var upp á sitt besta, einn stærsti og arðbærasti fiskstofn í heiminum. Ef þetta gengur eftir sem vísbendingar eru um í Barentshafinu skiptir gríðarlegu máli fyrir íslenska þjóðarhagsmuni hvert einasta prósent sem við náum í af stofninum. Það veit ég að hæstv. ráðherra hlýtur að viðurkenna.