Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:31:35 (278)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla.

[15:31]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra skýr svör og hlakka til að heyra um tilurð og tilkomu þessa nýja Hávallaskóla. Um leið hryggir það mig að heyra svör hæstv. ráðherra hvað varðar kennaradeiluna af því að hún kemur stjórnvöldum svo sannarlega við. Ríkið þarf að gera upp skuldir sínar við sveitarfélögin enda eru litlir fjármunir til skiptanna hjá þeim til að mæta útgjöldum á borð við þau sem að sjálfsögðu fylgja væntanlegum og nýjum kjarasamningum við kennara. Sveitarfélögin eru mörg hörmulega illa stödd og sum þeirra geta tæpast sinnt lögbundnum verkefnum sínum að mestu vegna ranglátrar tekjuskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega vitlaust gefið í þessu spili. Því skora ég á hæstv. menntamálaráðherra sem ber ábyrgð á fræðslu og menntun grunnskólabarna í landinu þegar allt kemur til alls að beita sér með jákvæðum hætti fyrir aðkomu stjórnvalda og stjórnmálaflokkanna að málinu. Hæstv. ráðherra er í lófa lagið að koma einhvern veginn að borðinu með jákvæðum hætti. Það eru mér vonbrigði að heyra, eins og kom fram í umræðunni í dag, að hæstv. nýr forsætisráðherra og hæstv. nýr menntamálaráðherra skuli ekki vilja beita sér í deilunni. Ég harma það mjög að þeir skuli láta það óátalið í þeirri alvarlegu og vondu stöðu sem deilan er í núna.