Skipun nýs hæstaréttardómara

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 15:44:43 (284)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[15:44]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ákvörðun mín um skipun hæstaréttardómara 29. september síðastliðinn var tekin á grundvelli 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, að aðgættum almennum starfsgengisskilyrðum samkvæmt 2. og 3. mgr. sömu greinar og að teknu tilliti til langrar og samfelldrar reynslu þess sem fyrir valinu varð, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, af málflutningi og rekstri lögmannsstofu.

Hinn 13. fyrra mánaðar var ég settur til að fara með og taka ákvörðun í máli þessu í stað Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra sem vikið hafði sæti í málinu á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaganna. Umsagnir um embættið höfðu þá þegar verið sendar Hæstarétti í samræmi við 4. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og leitað hafði verið eftir umsögn hans um hæfi og hæfni umsækjenda.

Umsagnir réttarins, reyndar tvær, dags. 17. september, bárust mér stuttu síðar. Þar kom fram að rétturinn teldi með einum fyrirvara alla umsækjendur uppfylla almenn hæfisskilyrði til að taka við embættinu skv. 1.–8. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, þar á meðal um hæfni. Þó var greint á milli umsækjenda í niðurlagi umsagnar meiri hluta réttarins án þess að fram kæmi nánar á hvaða sjónarmiðum sú niðurstaða væri byggð.

Á hinn bóginn hafði rétturinn áður bent á að ástæða væri til að gæta að því hverrar þekkingar og reynslu væri helst þörf þegar valinn er dómari í hóp þeirra sem réttinn skipa að öðru leyti. Þannig var í umsögn Hæstaréttar um umsækjendur um embætti dómara, dags. 5. ágúst 2003, bent á að aðeins einn dómari við réttinn hefði verið sjálfstætt starfandi lögmaður. Í réttinn hafði reyndar ekki verið þar til nú skipaður sjálfstætt starfandi lögmaður frá 1. mars 1990, en sá dómari lét af embætti fyrir nokkrum árum. Skipan réttarins hafði því ekki breyst hvað þetta atriði varðar.

Að þessu athuguðu taldi ég ástæðu til að veita þessu sjónarmiði sérstakt vægi við mat mitt á umsóknum um stöðuna. Í ljósi þess og með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis frá 3. maí 2004 fór ég þess á leit með bréfi hinn 20. september að Hæstiréttur lýsti nánar viðhorfi sínu til hæfni umsækjenda með tilliti til þessa sérstaka atriðis, þ.e. reynslu þeirra af lögmannsstörfum.

Svar réttarins, dags. 27. september, barst mér sama dag. Þar er engu bætt við það mat sem fram kom í þeim samanburði sem rétturinn hafði áður látið í té í fyrri umsögn sinni um málið. Samkvæmt henni taldi rétturinn ljóst að tveir umsækjendur hefðu báðir verulega reynslu af lögmannsstörfum og stæðu að því leyti öðrum umsækjendum framar. Rétturinn taldi hins vegar ekki efni til að gera upp á milli þeirra innbyrðis þótt munur væri á þeim heildartíma sem þeir hefðu sinnt slíkum störfum.

Annar þessara manna er sá sem varð fyrir valinu og hefur verið skipaður í embættið. Hann hefur yfir 30 ára farsæla og samfellda reynslu af málflutningi og öðrum lögmannsstörfum og er eini umsækjandinn sem kemur úr hópi sjálfstætt starfandi lögmanna. Að þessu athuguðu var hann sá umsækjenda sem á að baki lengsta reynslu af því tagi sem ég ákvað að leggja sérstaka áherslu á við val á umsækjanda í embættið sem laust var. Að þessu leyti hafði hann ákveðna yfirburði með tilliti til annarra umsækjenda, jafnvel þótt einhverjir þeirra hafi reynslu af lögmannsstörfum og sumir verulega, og hlaut hann að njóta þeirra í samanburði við þá.

Ég vil bæta því við að ég vann þetta mál, sem óvænt kom í mínar hendur að leysa úr, eftir bestu samvisku og ég tel að mjög vel hafi til tekist. Því fer að sjálfsögðu fjarri að geðþótti hafi ráðið niðurstöðunni.