Skipun nýs hæstaréttardómara

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:06:35 (293)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Skipun nýs hæstaréttardómara.

[16:06]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mér finnst full þörf á að ítreka við þessa umræðu.

Í fyrsta lagi er ljóst að dómstólalögin gera ráð fyrir að ráðherra velji nýjan hæstaréttardómara úr hópi þeirra sem Hæstiréttur telur að fullnægi lögbundnum hæfisskilyrðum og hafi jafnframt til að bera næga hæfni til að gegna embættinu. Þetta er skýrt í dómstólalögunum en hvorki lögin sjálf né lögskýringargögn gera ráð fyrir því að Hæstiréttur geri beina tillögu til ráðherra um hvern eigi að skipa. Ekki er heldur gert ráð fyrir því að umsögn réttarins bindi hendur ráðherra umfram það að honum er að sjálfsögðu óheimilt að skipa þá sem ekki fullnægja skilyrðunum um annaðhvort hæfni eða hæfi. Þetta er nauðsynlegt að undirstrika sérstaklega við þessa umræðu því að margir hv. ræðumenn hér í dag hafa látið í veðri vaka að hlutverk Hæstaréttar í þessu sambandi sé eitthvað miklu meira en lögin kveða á um.

Hv. málshefjandi Lúðvík Bergvinsson vitnaði m.a. í ummæli okkar ágæta gamla læriföður, Sigurðar Líndals, sem féllu í útvarpsviðtali fyrir skömmu um þetta efni. Ég verð að segja að ef taka ætti þá skýringu sem prófessor Sigurður Líndal kom með á málinu er beinlínis verið að færa veitingarvaldið til Hæstaréttar en það er ekki það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í lögum hér. Það er heldur ekki það fyrirkomulag sem við sjáum í löndunum í kringum okkur.

Það er fráleitt að mínu mati að tala eins og verið sé að ganga á sjálfstæði dómstólanna í landinu, sjálfstæði dómsvaldsins, með því að velja aðra niðurstöðu en Hæstiréttur mælir með í þessu sambandi. Ef við snúum dæminu við og viðurkennum að Hæstiréttur hafi endanlegt val í þessum efnum er veitingarvaldið flutt þangað frá ráðherranum. Þannig er ekki gert ráð fyrir að lögin virki.

Við getum svo sem rætt um hvort breyta megi þessu fyrirkomulagi. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagið hafi í meginatriðum reynst vel. Valdið liggur hjá ráðherra en auðvitað liggur pólitísk ábyrgð þar líka.