Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:27:23 (297)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:27]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku hófum við umræðu um þingmál sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram um frestun á sölu Landssímans. Því miður gafst okkur ekki tími til að klára umræðuna sem þá hófst. Nokkrir biðu á mælendaskrá þegar þeirri umræðu var frestað og henni er nú fram haldið.

Ég vil byrja á því að segja að ég fagna umræðu um málefni Símans og um fjarskiptamál í landinu almennt. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram, bæði í síðustu viku og í dag, sé af hinu góða. Í síðustu viku flutti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ágætt mál um málefni Símans og fjarskipti almennt í þjóðfélaginu. Ég vil segja að ég deili þeim áhuga sem hv. þm. sýnir fjarskiptamálum, þá sérstaklega á landsbyggðinni, og við deilum væntanlega þeirri hugsjón að við viljum sjá fjarskipti batna til muna á landsbyggðinni frá því sem nú er.

Hér er fyrst og fremst um hápólitískt álitamál að ræða sem stjórnmálaflokkarnir standa frammi fyrir, þ.e. sala Landssímans. Hér hafa hv. þm., sérstaklega Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, mikið vitnað í skoðanakannanir sem voru gerðar fyrir nokkrum árum þar sem rætt var um stuðning eða andstöðu landsmanna og ýmissa hópa innan mismunandi flokka um sölu á Símanum.

Mig langar þar af leiðandi til að varpa fram spurningu: Hvaða forsendur liggja að baki slíkri könnun? Var sú forsenda t.d. að baki þeirri könnun að skilyrði við sölu Símans yrði það að við mundum stórbæta GSM-dreifikerfið og háhraðatengingar víða um land? Ég vil leyfa mér að draga í efa að ef slíkt hefði verið tekið fram í umræddri könnun hefði svörun orðið sú sem hún varð. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur þeirrar spurningar nú þegar samkeppni er orðin mjög mikil á fjarskiptamarkaði í landinu. Mér reiknast til að um 30–40 einkafyrirtæki, sprotafyrirtæki, bjóði, oftar en ekki dreifðum byggðum og sveitum, þjónustu, þá sérstaklega hvað varðar háhraðatengingar gagnvart tölvum þar sem Síminn hefur því miður kannski ekki staðið sig sem skyldi. Við erum sammála um það, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Við þurfum einfaldlega að spyrja okkur spurningarinnar: Á ríkið að standa í samkeppni við þessa aðila?

Ég viðurkenni að þar greinir okkur allverulega á, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, og stjórnmálaflokkana almennt, Framsóknarflokkinn og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, því að það er stefna Framsóknarflokksins að standa ekki að slíkum samkeppnisrekstri við fjöldann allan af innlendum aðilum sem eru á þeim markaði.

Af því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala um að við framsóknarmenn skuldum kjósendum okkar skýringar á því af hverju við erum að fara í þessa einkavæðingu, þá var það ljóst fyrir kosningar að í þennan leiðangur yrði farið. Í raun var það stefna síðustu ríkisstjórnar að við skyldum einkavæða Landssímann þannig að það gekk enginn gruflandi að því í aðdraganda síðustu kosninga hver stefna Framsóknarflokksins væri í þessu máli, hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri í þessu máli eða annarra stjórnmálaflokka því að stefnan hafði verið mörkuð. Ég veit ekki betur en forsvarsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi andæft því fyrir síðustu kosningar og talað um það á mörgum framboðsfundum að ekki bæri að selja Landssímann heldur ætti ríkið að eiga Landssímann og standa þar af leiðandi í samkeppni við 30–40 einkafyrirtæki á markaðnum. Við skulum ekki gleyma því að eitt af þessum fyrirtækjum, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr öðrum aðilum á þessum markaði, er fyrirtæki sem heitir Og Vodafone, fyrirtæki sem ófáir landsmenn eiga hlut í, mjög stórt fyrirtæki og mjög öflugur samkeppnisaðili. Enn og aftur skulum við spyrja okkur þeirrar spurningar: Eigum við, ríkið, að standa í samkeppni við öflug almenningshlutafélög og önnur sprotafyrirtæki hér í landinu? Ég segi nei, og þar skilur okkur einfaldlega að í þessari umræðu.

Við getum rætt fleira í þessari umræðu um einkavæðinguna sem hefur átt sér stað á síðustu árum. Okkur greindi einnig á í því verkefni sem einkavæðing ríkisbankanna var á sínum tíma. Á þeim tíma stóðu ríkisbankarnir í mikilli samkeppni við banka sem voru í eigu almennings, lífeyrissjóða og annarra tugþúsunda fjárfesta í íslensku þjóðfélagi.

Hver er veruleikinn sem við horfum á í dag ? Við horfum á útrás íslenska bankakerfisins og við horfum kannski í fyrsta skipti í sögunni á alvöru samkeppni á íslenskum bankamarkaði sem er trúlega ein mesta kjarabót sem íslenskar fjölskyldur hafa fengið á hinum síðari árum.

En ég get ekki látið hjá líða í umræðunni sem hér á sér stað að segja að mér finnst hins vegar þjónusta Símans við íbúa landsbyggðarinnar oft á tíðum ekki upp á marga fiska og því fyrirtæki ekki til sóma. Ég veit að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon getum sagt sömu sögu af því úr þessum stól því við höfum báðir farið víða um landsbyggðina og þá sérstaklega norðausturhornið og suðurfirði kjördæmis okkar. Það er alveg ljóst að Síminn hefur ekki veitt þessum smærri þéttbýliskjörnum þá þjónustu sem skyldi og það er staðreynd málsins.

Hver eru svör forsvarsmanna fyrirtækisins? Jú, að ákveðin arðsemi þurfi að vera af ákveðnum hlutum. Nú þekki ég ekki hvaða viðmiðanir þetta opinbera fyrirtæki hefur sett sér en hverjar eiga þessar arðsemiskröfur að vera? 10, 15 eða 20%? Svör þessa opinbera fyrirtækis eru að þeir fari fram á nokkuð mikla arðsemi af fjárfestingum sínum.

Ég spyr: Er það virkilega þannig að ef arðsemi er kannski ekki meiri en 5% eða ef arðsemin er jafnvel á pari að þá eigi heilt byggðarlag þar af leiðandi ekki að fá háhraðatengingu eða aðra þjónustu sem Síminn getur veitt? (Gripið fram í: Það lítilræði.) Er það framtíðarsýn okkar? spyr ég.

Ég held að flestir sem sitja hér á hinu háa Alþingi geti verið sammála um að við mælum einfaldlega ekki allt í krónum og aurum, og hér tala ég fyrir hönd míns flokks, það er ekki stefna Framsóknarflokksins að reka hér óheft markaðssamfélag þar sem krónur og aurar skipta meira máli en velferð, lífsgæði, öryggi og hamingja fólksins.

Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn sett það skilyrði við sölu Símans að fjármunir verði teknir frá við söluna og nýttir til að bæta þjónustu við þessa smærri þéttbýlisstaði. Það kemur mér því á óvart og fer ekki hjá að mér sárni að í þessari umræðu hefur trúlega hvað versta orð legið til Framsóknarflokksins, þrátt fyrir að allir forustumenn flokksins hafi sagt það í umræðum hér innan þings sem utan að þeir vilji efla þjónustu Símans við þessa staði.

Síðan vil ég fara yfir þá þjónustu sem Síminn veitir. Við vitum að GSM-dreifikerfið er mjög stopult kerfi, það er mjög götótt. Við lifum á 21. öldinni og tækniframfarir hafa verið miklar á umliðnum árum og þó að stjórnendur Símans segi að 99% heimila njóti þjónustu í GSM-kerfinu þá er það oft þannig, sérstaklega í mörgum smærri sveitarfélögum og þéttbýliskjörnum að þegar út fyrir túnfótinn er komið þá er ekkert GSM-samband. Og í ljósi þess öryggishlutverks sem GSM-dreifikerfið gegnir í dag er það er að mínu viti nokkuð alvarlegur hlutur hversu gloppótt það er, hvort sem það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Við getum tekið sem dæmi margar björgunarsveitir sem vinna kraftaverk árið um kring, sem byggja öryggiskerfi sitt að nokkru leyti á GSM-kerfinu. Það er því mikið réttlætismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að úr þessu verði bætt.

Háhraðatengingar er annað sem varðar þjónustu Símans, það eru tengingar við veraldarvefinn sem er orðinn órjúfanlegur hluti af daglegu lífi okkar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið nást í dag háhraðatengingar, svokallaðar ADSL-tengingar, til um 90% landsmanna eða rétt rúmlega það.

En ég spyr: Er það nóg? Er í lagi að skilja hin tíu prósentin eftir? Mundum við hv. þingmenn sem hér erum inni sætta okkur við að hafa ISDN-tengingar á tölvunum okkar? Ég er ansi hræddur um ekki. Þetta þarf að bæta og ég held að allir séu sammála um það.

Hins vegar vil ég segja það, hæstv. forseti, að mér finnast vægast sagt dapurleg þau orð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð, hefur valið sér m.a. í síðustu viku gagnvart okkur framsóknarmönnum. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eigi ekki að efast um góðan hug okkar framsóknarmanna til þjónustu í fjarskiptum á landsbyggðinni, ég veit ekki hversu oft forustumenn flokksins, beggja stjórnarflokkanna, þurfa að segja að við ætlum okkur að bæta þessa þjónustu. (Gripið fram í.) En menn skella hér við skollaeyrum og vilja ekki heyra og tala — ja, ég vil nota það orð — með niðurrifshætti, um margar byggðir landsins þar sem við ætlum okkur að bæta fjarskiptin.

Í þessari umræðu er eins og sá ágæti flokkur Sjálfstæðisflokkurinn sé alltaf að kúga Framsóknarflokkinn, að Framsóknarflokkurinn liggi hér kylliflatur undir Sjálfstæðisflokknum. Hér er ekki verið að kúga neinn. (Gripið fram í: Ég er ánægður með þetta.) Það er enginn úr þingflokki Framsóknar sem liggur kylliflatur fyrir Sjálfstæðisflokknum og það er enginn í þeim ágæta samstarfsflokki Sjálfstæðisflokknum sem liggur í valnum eftir okkur framsóknarmenn, þannig er það ekki í þessu stjórnarsamstarfi. (Gripið fram í: Nei.) Hér er um heiðarlegt og gott samstarf að ræða á milli tveggja flokka og ég veit að þetta fer alveg óskaplega í taugarnar á hv. stjórnarandstöðu þegar við tölum svona fallega hvor um annan, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, því að ekki er nú samlyndið svo gott í stjórnarandstöðunni eins og raun ber vitni.

En ég vil segja það hér, hæstv. forseti, í lok máls míns, að að sjálfsögðu munum við fylgja markaðri stefnu ríkisstjórnarinnar, Landssíminn mun verða seldur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Aðalatriðið í þeirri umræðu sem mér finnst háttvirt stjórnarandstaða hafa byggt hér upp, að þetta hafi átt að koma einhverjum á óvart, þetta lá allt fyrir í aðdraganda síðustu kosninga. Síðasta ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk innan borðs markaði þessa stefnu og margar umræður hafa verið teknar um hana.

Aðalatriðið er að það er ekki sama hvernig sala Símans fer fram. Ég legg áherslu á það, mér finnst margir hv. þingmenn hafa verið búnir að gefa sér það í umræðunni að ekki er búið að skilgreina sölu Símans, þ.e. hvernig það söluferli fer fram. Ég held að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ættu að bíða með sleggjudómana þangað til sú niðurstaða liggur fyrir, það ferli er nú að hefjast.

Þetta mál liggur því nokkuð skýrt fyrir, það er verið að skilgreina hvernig sala Símans mun fara fram og komið í ákveðið undirbúningsferli að sölunni og því hvet ég hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðunnar, til að spara stóru orðin og gífuryrðin í garð Framsóknarflokksins í umræðunni þangað til sú niðurstaða liggur fyrir.