Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:41:43 (298)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:41]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að það er komið við mikla kviku hjá ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins þegar aðild þeirra að þessu máli er nefnd, og talsmanni flokksins var svona órótt á köflum fannst mér hér í málsvörn sinni fyrir framgöngu Framsóknarflokksins. Ég leyfi mér að segja að það hafi verið nokkrar mótsagnir í málflutningi hv. þm., t.d. sagði hann hér í lokin að menn ættu ekki að vera að tjá sig um þetta svona vegna þess að það ætti eftir að skilgreina hvernig sala Símans færi fram og það skipti öllu máli. Það sannar auðvitað að ríkisstjórnin hefur hér valið þá ógæfulegu aðferð að ákveða fyrst að selja Símann og fara svo að velta því fyrir sér hvernig það eigi að gerast og hvaða afleiðingar það muni hafa. Sem sagt, fyrst gefa menn sér niðurstöðuna, það skuli einkavæða, svo er farið að velta því fyrir sér — já, bíddu, en hvaða áhrif hefur það, hvernig kemur það út fyrir landsbyggðina? Hvað þurfum við þá að reyna að gera til að deyfa höggið af þessu? Um það snýst hnoðið milli stjórnarflokkanna núna.

Hv. þm. spurði um þessa könnun og á hvaða skilyrðum hún hefði byggt. Það er einfalt. Engum. Þetta var einföld könnun án skilyrða. Það var spurt um afstöðu almennings til þessa einfalda grundvallaratriðis: Vilja menn að þetta fyrirtæki sé áfram í opinberri eigu eða ekki? Þjóðin er alveg fær um að gera upp hug sinn til slíkrar einfaldrar spurningar og það er einmitt kosturinn við könnunina að hún er algerlega skýr og einföld. Niðurstaðan er líka skýr: Yfir 60% vill að Síminn sé áfram opinbert fyrirtæki og reyndar hærra hlutfall þeirra sem gáfu upp stuðning við framsókn.

Svo stóð nú bara frjálshyggjusöngurinn upp úr hv. þm. um að ríkið ætti ekki að vera í samkeppni við einkaaðila þar sem þeir væru til staðar. (Gripið fram í.) En á hvaða grunni byggir þessi þátttaka einkaaðilanna á afmörkuðum sviðum? Jú, hún byggir á grunnkerfi Símans, þeir eru háðir viðskiptum við Símann um flutning á merkjum sínum þannig að málið er ekki alveg svona einfalt.

Ég held að það sé mikill misskilningur ef hv. þm. heldur að lausnin í þessum efnum liggi í endanlegri markaðs- og einkavæðingu fjarskiptasviðsins í landinu. Það mun ekki leiða til góðs.