Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:50:31 (302)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:50]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hlusta á það andsvar sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom hér með. Mig langar í fyrsta lagi að ræða um afstöðu Frjálslynda flokksins í þessu máli af því hér eru tveir ágætir þingmenn þess ágæta flokks.

Ég hélt að Frjálslyndi flokkurinn væri skilgreindur sem hægri flokkur, flokkur sem er hægra megin við miðju, hina íslensku miðju. En svo brá við í umræðum í síðustu viku að hingað flykktust þingmenn Frjálslynda flokksins upp og mærðu þessa tillögu, um að það bæri nú bara að fresta þessari einkavæðingu Símans og annað slíkt, það væri hið besta mál. Ég held að hv. þingmenn ættu að fara að skoða hugmyndafræði síns flokks sem mér finnst oft á tíðum ekki einkennast af einhverjum hægri sjónarmiðum heldur þeim sjónarmiðum sem henta best hverju sinni pólitískt séð.

Hvað varðar ábyrgðina á rekstri Símans er alveg ljóst að Síminn heyrir undir stjórn. Einstaka þingmenn fara ekki niður í Síma og skipa þar stjórnendum fyrir. Ég held að hv. þm. geti verið mér sammála um það. Það er alveg ljóst að stjórnin ber ábyrgð á og markar stefnu Símans. Sú stefna er ekki rekin hér eða tekin í þingsölum Alþingis.