Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 16:54:04 (304)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:54]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hafi kannski ekki hlustað nógu vel á mál mitt áðan. Ég fór yfir það hvað við framsóknarmenn sögðum fyrir síðustu kosningar. Ég fór líka yfir það í máli mínu (Gripið fram í.) að stefna ríkisstjórnarinnar var ljós fyrir síðustu kosningar, þeirra flokka sem stóðu að þeirri ríkisstjórn. Það vildi svo til að þessir flokkar héldu meiri hluta og hafa ákveðið að starfa áfram saman. Því hlýtur sú stefna að standa.

Og að tala um það að ég komi hér upp í púlt og tali í stjórnarandstöðu — ég veit ekki betur en að hv. þingmenn séu yfirleitt að gagnrýna sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fyrir að tala einni röddu. Það eru nú meiri ósköpin. Svo kem ég hingað upp og ræði um þau mál sem mér finnst að megi betur fara í íslensku þjóðfélagi, kemur ekki hv. þm. Sigurjón Þórðarson og gagnrýnir mig fyrir að tala ekki sama máli og ríkisstjórnin í málinu. Hvers lags málflutningur er þetta?

Ég hef í máli mínu sagt það að fyrirvarar Framsóknarflokksins í málinu eru þeir að við ætlum að bæta GSM-dreifikerfið og háhraðatengingar víða um land. Ég er ekki að tala hér í neinni stjórnarandstöðu. Þetta er bókun sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram og ég hef verið að skýra fyrirvara þingflokksins í þessu máli. Þannig að tvískinnungur háttvirtrar stjórnarandstöðu hvað þetta varðar er algjör. (SJS: Þetta er kattarþvottur.)