Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 17:33:00 (312)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:33]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skil mjög vel að menn vilji selja Símann. Ég hef góðan skilning á að áhugi sé á því. Rekstrarhagnaður Símans og dótturfyrirtækja var á síðasta ári 7.381 millj. kr. eða 40%. Þetta er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir. Arðsemi eigin fjár er tæplega 15%, 14,8% í fyrra. Þarna á sér stað gífurleg eignamyndun. Þarna eru verðmæti sem gefa af sér geysilegan arð. Ég skil þess vegna það sjónarmið að til séu aðilar sem vilji selja þetta fyrirtæki á nákvæmlega sama hátt og ég skildi þá fjárfesta sem keyptu búlgarska símann þegar hann var einkavæddur. 60% í honum voru seld nokkrum fjárfestum, þar á meðal Íslendingum, fyrir 25 milljarða. Það þótti mjög góð fjárfesting, mjög arðvænleg fjárfesting fyrir fjárfestana. Þá skil ég mjög vel.

Hina skil ég síður sem eiga að standa vaktina fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sem á Símann, sem nýtur þessa arðs, sem nýtur þessarar eignar sinnar. Ég skil að vissu leyti Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans sem vilja í öllu frjálst markaðskerfi. Það er ákveðin pólitísk sýn, pólitísk nálgun. Þeir telja að samfélaginu sé betur borgið með þeim hætti. Þó að menn séu komnir nokkuð langt frá gamla Sjálfstæðisflokknum sem var breiðari að þessu leyti og hugsaði meira á almennum nótum um þjóðarhag, minna um hag fjárfestanna eða létu ekki stjórnast af hagsmunum þeirra og sú var tíðin að Framsókn var á öðru róli og hugsaði samfélagslega. Það er löngu liðinn tími.

Mér fannst athyglisvert að hlusta á talsmann Framsóknarflokksins við umræðuna í dag, hv. þm. Birki Jón Jónsson, sem blandaði sér í umræðuna sem var hið besta mál. En hann spurði: Er eðlilegt að Síminn í eign þjóðarinnar sé í samkeppni við 20–30 fyrirtæki? Er það eðlilegt? Hann taldi svo ekki vera. En þá held ég áfram og spyr: Er eðlilegt t.d. að halda úti ríkisútvarpi sem er í samkeppni við fjöldann allan af útvarpsstöðvum? Hvar eigum við láta staðar numið? Nú er byrjað að einkavæða ýmsa geira heilbrigðisþjónustunnar og menn spyrja á sömu lund: Er eðlilegt að ríkið standi í samkeppni við einkarekna heilbrigðisþjónustu? Þetta er aðferðafræðin sem er notuð til að brjóta niður samfélagslega þjónustu. Hvar ætlum við að láta staðar numið? Er ekki kominn tími til að við hugsum um þjóðarhag, hvað gagnast þjóðinni best? Við bendum á í greinargerð með frumvarpinu að nýlega hafi Síminn keypt stóran hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu sem rekur Skjá 1. Var það ekki 25% hlutur? Fulltrúar Símans sátu fyrir svörum í Kastljósi samdægurs eða daginn eftir þá ákvörðun og fulltrúar okkar, fréttamennirnir, spurðu: Hvernig stendur á því að þið fjárfestuð í Skjá 1 en ekki Norðurljósum? Svar forstjóra Símans eða stjórnarformanns var á þá leið að Síminn hefði í sjálfu sér engan áhuga á sjónvarpsrekstri heldur vildi tryggja sér viðskipti. Aðilar sem réðu yfir fjarskiptaneti, gagnaneti. En fréttamönnunum datt ekki í hug að spyrja þess sem mér þótti vera augljóst: Hvers vegna var ekki leitað til Ríkisútvarpsins um samstarf? Þetta er nefnilega orðið bannorð, þjónustufyrirtæki í eigu almennings mega ekki vera til, mega ekki starfa saman.

Mér fannst athyglisverðar yfirlýsingar sem fram komu í viðtali við útvarpsstjóra Markús Örn Antonsson í Fréttablaðinu fyrir skömmu um dreifikerfið, um stafrænt dreifikerfi og jarðnet. Hann vísaði í nefnd sem er starfandi á vegum hæstv. samgönguráðherra. Ég ætla að vitna, með leyfi forseta, í þetta viðtal við Markús Örn Antonsson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Við höfum yfir okkur þá meginkröfu að þjóna landsmönnum öllum og til þess að þjóna öllu landinu teljum við að þurfi að byggja upp stafrænt dreifikerfi, jarðnet með sendum út um allt land.“ Síðar segir: „Samgönguráðuneytið hefur haft forgöngu um athuganir á þessum málum og gert grófar áætlanir um það hvernig væri hægt að standa að því. Niðurstaðan var sú að óska eftir samráði útvarps- og sjónvarpsfyrirtækjanna annars vegar og fjarskiptafyrirtækjanna, aðallega Símans, hins vegar, um það hvort ekki væri hægt að ná samstarfi og sameinast um eina stefnu varðandi uppbyggingu á stafrænu dreifikerfi til alls landsins. Síminn og Norðurljós hafa ekki áhuga á því. Hér hjá RÚV höfum við sagt að við teljum langeðlilegast að sem flestir aðilar taki höndum saman og til verði eitt kerfi sem bjóði upp á einn myndlykil til hagræðis fyrir notendur sem geti þannig náð öllum rásum sem í boði eru.“

Ég vil taka undir þessi orð útvarpsstjóra Markúsar Arnar Antonssonar og þau sjónarmið, það viðhorf sem kemur fram um samstarf og samvinnu sem heyrir nánast sögunni til þegar kemur að orðabókum ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Ég ætla að rifja það upp eins og ég gerði síðast þegar ég vitnaði í ummæli fyrrverandi og núverandi forstöðumanna Símans, Póstur og sími hét það á þeim tíma. Fyrrverandi forstjóri var spurður hvaða markmiðum hann vildi helst ná í sínu starfi. Að þjóna landsmönnum sem best, sagði hann. Núverandi forsvarsmenn voru spurðir sömu spurninga og svarið var á þá leið að þeir vildu skila eigandanum góðum og miklum arði. Það er í sjálfu sér ágætt sjónarmið líka. Það væri mjög gott sjónarmið ef arðurinn væri látinn renna til þjóðarinnar. Hún væri látin njóta góðs af þessari eign sinni en ekki þeir aðilar sem bíða eftir því að ríkisstjórnin geri alvöru úr því að selja fyrirtækið, þetta mikilvæga fyrirtæki úr hendi þjóðarinnar. Ég lýsi mikilli undrun á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sumir hverjir eru sæmilega víðsýnir enn þá, og einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins skuli ekki vera tilbúnir að taka undir með okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem leggjum hér til í sáttaskyni að menn fresti sölunni til ársins 2008. Að sjálfsögðu erum við þeirrar skoðunar að ekki eigi að selja Símann en í sáttaskyni, í málamiðlunarskyni viljum við fara þessa leið. (Gripið fram í: Að selja þá?) Nei.