Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 17:57:47 (319)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:57]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Að líta praktískt á hlutina er góðra gjalda vert. Þannig var það líka þegar fyrirrennarar Vinstri grænna, alþýðubandalagsmenn, litu á útvarpsrekstur og héngu í því alveg fram í rauðan dauðann að það væri ríkið eitt sem ætti að hafa einkaleyfi á útvarpsrekstri.

Síðan gerist það að opinberir starfsmenn fara í verkfall og slökkva á Ríkisútvarpinu. Þá hafði verið að velkjast í sölum Alþingis frumvarp til breytinga á lögum um útvarpsrekstur sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti ár eftir ár, þar sem einkaaðilum væri heimilt að reka útvarp. Það var nú aldeilis ekki og fyrirrennarar Vinstri grænna börðust hatramlega gegn því. En allt í einu kom góður liðsauki sem fylgdi málum hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar eftir og það lenti í góðri höfn. Það kom þjóðinni til góða að opinberir starfsmenn fóru í verkfall og slökktu á Ríkisútvarpinu, þeim öryggismiðli. Það kom þjóðinni best að þeir slökktu vegna þess að þá var lögum um útvarp breytt.

Við erum sannfærð um það sem stöndum að sölu Símans að það er þjóðinni fyrir bestu.