Veðurþjónusta

Þriðjudaginn 19. október 2004, kl. 13:55:06 (605)


131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:55]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir góðar undirtektir við frumvarpið sem er hér til umfjöllunar. Það er alveg hárrétt að hér er um endurflutt mál að ræða þar sem í raun er verið að svara kalli tímans og setja sérþjónustuna í markaðsumhverfi þannig að hún verði aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Það er mjög eðlilegt.

En ég vil bregðast sérstaklega við því sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði um veðurþjónustuna á Hveravöllum. Í raun er verið að fækka mönnuðum stöðvum. Þetta tengist auðvitað líka bara hreinlega tækniframförum og nýjungum í mælingum og öðru slíku. Þegar upp er staðið verður þjónustan kannski bara enn þá nákvæmari ef veðurstöðvarnar eru sjálfvirkar. Ég get þó tekið undir þau sjónarmið sem hann var að nefna hérna um ýmsa þætti. Þar er mannsaugað kannski næmara til þess að meta en þessar sjálfvirku stöðvar. En ég á ekki von á því að þarna verði farið til baka. Það er búið að taka þessar ákvarðanir. Ég vil líka taka það fram að mér hefur ekki borist erindi þess efnis, a.m.k. ekki enn þá.

Af því að hann nefndi að verið gæti áhugavert að fá t.d. upplýsingar um það hvernig veðrið væri á einstökum stöðum þá vil ég líka benda á að það er álitamál hvort Veðurstofan ætti endilega að annast slíkt. Ég bendi honum á að í Grundarfirði hefur einstaklingur gert þetta með því að hreinlega er hægt að fara á netið og sjá myndir af staðnum. Þetta gæti því verið áhugavert verkefni fyrir áhugasaman einstakling, t.d. á Blönduósi og víðar. Hægt er að taka sér þetta til fyrirmyndar.