Veðurþjónusta

Þriðjudaginn 19. október 2004, kl. 13:57:43 (606)


131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Veðurþjónusta.

183. mál
[13:57]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tiltölulega jákvæða afstöðu til þeirra mála sem ég bar hér upp.

Það er sjálfsagt að huga að og innleiða alla hina bestu tækni í veðurþjónustu. Ég tel veðurþjónustuna hins vegar vera hluta af grunnupplýsingakerfi fyrir almennt mannlíf og atvinnulíf í landinu. Ég tel að hún sé ekki atvinnurekstur í sjálfu sér að öðru leyti heldur eigi hún að gefa sem bestar upplýsingar fyrir mannlífið og atvinnulífið.

Eins og ég vakti athygli á þá skiptir einmitt m.a. skyggnið máli fyrir þjóðvegakerfið en það kemur ekki fram í þeim tæknivæddu mælingum og mælitækjum sem nú eru notuð.

Ég tel líka að veðurþjónustan sé hluti af öryggiskerfinu, almennu öryggiskerfi landsmanna, og þess vegna eigi ekki að kasta henni út á einkamarkað. Hitt má vel vera, eins og hæstv. ráðherra minntist á, að verið geti að semja megi við einstaklinga um ákveðna þjónustu enda sé þá hægt að treysta á hana.

En ég ítreka það að komi erindi til hæstv. ráðherra um að taka þátt í að byggja upp öryggisþjónustu á Hveravöllum sem m.a. taki til góðra upplýsinga um veður þá vænti ég þess að hún taki þeim tilmælum vel.