Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar

Þriðjudaginn 02. nóvember 2004, kl. 17:23:07 (919)


131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:23]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umferðin greiðir fyrir stofnbrautakerfið í landinu. Það er einfaldlega þannig. Við höfum bensíngjald og við höfum gjald sem við leggjum á dísilbíla og þau standa undir þessari fjárfestingu. Það þarf ekki að deila um það. Það liggur bara fyrir.

Það er hárrétt sem hv. þm. vakti athygli á, að þessu er ekki skipt jafnt þannig lagað, að sumir bílar borga ekki nákvæmlega þá notkun sem þeir hafa af vegunum o.s.frv. Um það getum við deilt.

Það sem ég var einfaldlega að fiska eftir var: Er það hugmynd hv. þm. að sá gjaldstofn sem við höfum í dag, þ.e. bensíngjald og olíugjald, þungaskattur o.s.frv., skuli standa undir þeirri viðbótarfjárfestingu sem hér er lagt til að ráðast í? Ég segi ekki að hún sé ekki skynsamleg og útiloka ekki að þetta geti verið mjög skynsamlegt.

Ég var einfaldlega að fiska eftir hugmyndum þingmannsins varðandi þá umferð sem í dag borgar vegina. Við erum stöðugt að gera kröfur um að farið verði hraðar í alla uppbyggingu á umferðarmannvirkjum fyrir bifreiðir. Er hv. þm. á þeirri skoðun að eðlilegt væri að sú umferð sem við skattleggjum í dag að hluta muni standa undir þessum viðbótarkostnaði?

Mér heyrðist hv. þm. í raun leggja það til, að það væri eðlilegt að bensíngjaldið, þungaskatturinn og dísilgjöldin og allt sem því tilheyrir, færu þá í það að greiða upp þessar stofnbrautir. Mér finnst mikilvægt að það sjónarmið sé a.m.k. skýrt.