Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 13:41:17 (1003)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:41]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ástæða til að vera á varðbergi gagnvart því sem gæti gerst í þróun efnahagsmála og er nú þegar í gerjun og að koma fram. Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hvað það varðar. Ég varð fyrir vonbrigðum með orð hæstv. forsætisráðherra sem virðist taka þessi mál af of mikilli léttúð að mínu viti.

Það er ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að taka á efnahagsstjórninni á hverjum tíma. Möguleikar Seðlabankans eru hækkun stýrivaxta eins og við höfum verið að reyna á undanförnum mánuðum. Þeir geta tekið lán hjá viðskiptabönkunum og takmarkað fjármagn í umferð. Þeir geta hækkað bindiskyldu bankanna. Seðlabankinn hefur ekki mörg önnur tæki. Seðlabankastjóri hefur hins vegar lýst áhyggjum af stöðu mála, einmitt með því að hækka stýrivextina. Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki áhrif á þau lán sem tekin eru í erlendri mynt. Þeir munu því fyrst og fremst virka gagnvart þeim sem eru háðir lánum á innanlandsmarkaði: einstaklingum, minni fyrirtækjum, sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, sem sagt grasrót íslensks atvinnulífs. Hún mun fyrst og fremst verða fyrir barðinu á þessari tegund efnahagsstjórnar Seðlabankans. Og ég er ekki sammála að þetta sé rétt. Ég tel þetta rangt.

Ég vil því spyrja forsætisráðherra hvort ekki væri rétt að Seðlabankinn athugaði aðrar leiðir eins og að hækka bindiskylduna aftur. Hún var lækkuð úr 4% í 2% um síðustu áramót og gerði það að verkum að tugir milljarða komust í umferð. Er ekki rétt að skoða það að hækka bindiskylduna eða að Seðlabankinn taki lán hjá viðskiptabönkunum og takmarki þannig peninga í umferð en níðist ekki alfarið og eingöngu á einstaklingum, sprotafyrirtækjum og grasrót íslensks atvinnulífs?