Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. nóvember 2004, kl. 14:43:13 (1018)


131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:43]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Síðastliðið sumar fékk Íbúðalánasjóður óvænta samkeppni og var ekki seinna vænna að kæmist á samkeppni í lánveitingum til einstaklinga. Þessi samkeppni er þess eðlis að veitt er mjög hátt hlutfall í lánveitingum og ekki er endilega verið að spyrja í hvað peningarnir fara og sú forsjárhyggjan sem er í gangi hjá Íbúðalánasjóði er ekki til staðar. Menn þurfa ekki endilega að taka fullt lán. Menn þurfa ekki endilega að taka þau til ákveðins tíma o.s.frv. Það er sem sagt komin miklu meiri og sveigjanlegri samkeppni við Íbúðalánasjóð. Hann rauk að sjálfsögðu upp til handa og fóta og frumvarpið sem við sjáum í dag er afleiðingin þess að Íbúðalánasjóður er í rauninni að reyna að bjarga eigin skinni í þessari samkeppni. Þó að hann sé enn þá með eitthvað ívið lægri vexti held ég að stóraukin þjónustulund samkeppnisaðilanna á markaðnum geri honum mjög erfitt um vik.

Menn hafa rætt talsvert mikið um hvort þessi nýju lán séu ekki þensluhvetjandi og það er ekki spurning að þau verða það að einhverju leyti. Ég skipti þeim hópi manna sem fær þarna minni greiðslubyrði í tvennt. Ég hef séð greiðslubyrði sem hefur lækkað um allt að helming hjá þeim sem eru í miklum vandræðum, en hvað gera þeir við afsláttinn? Sumir eru í þeirri stöðu að þeir eru að sigla beint í gjaldþrot, því miður allt, allt of margir, eins og fréttir hafa borið með sér. En ef þeim er forðað frá gjaldþroti með því að þeir ráða við greiðslurnar þá er það mjög jákvætt og kannski ein jákvæðasta niðurstaðan af þessari samkeppni. Þeir munu ekki auka eyðslu sína, þeir munu auðvitað bara borga eins og þeir geta þannig að sá hópur mun ekki valda þenslu. Svo er það sá hópur sem ræður við núverandi greiðslubyrði og fær allt í einu jafnvel helmingslækkun. Hvað gerir hann við peningana sem hann hefur þá til ráðstöfunar? Menn hafa bent á og kannski með réttu að margir muni auka eyðsluna, kaupa sér bíl, fara í utanlandsferðir, taka aukin lán upp í greiðslubyrðina sem þeir geta ráðið við, og það er ákveðin hætta. Við slíkt fólk vil ég segja að 90% lánveiting er mjög hættuleg, ég kem betur inn á það á eftir, og menn ættu að huga betur að því að auka hraða eignamyndunar, þ.e. að borga niður skuldir eða jafnvel að mynda sparnað. Þeir sem aldrei hafa átt peninga í banka ættu að reyna að ímynda sér það hversu huggulegt það er og unaðslegt að eiga kannski 2, 3 milljónir í banka til að grípa til ef eitthvað bjátar á svo sem veikindi, atvinnuleysi, skilnaður eða fleira þannig að menn séu ekki algerlega berskjaldaðir fyrir áföllum. En það sem menn ættu fyrst og fremst að gera er að nota þessa auknu greiðslugetu til að auka sparnað eða greiða niður skuldir.

Menn hafa líka rætt hér um landsbyggð og höfuðborgarsvæði og menn reyna alltaf að stilla þessu upp sem einhverjum andstæðum. Það er ekki þannig. Ég tek undir með hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni, þingmanni Austurlands, sem sagði að við ættum frekar að tala um virk og óvirk svæði, þ.e. virk svæði þar sem eignir eru seljanlegar, þar er auðvelt að lána alveg sama hvar sú eign er, hvort sem hún er á Reyðarfirði, í Reykjavík eða í Keflavík, og hins vegar svæði sem eru óvirk þar sem getur verið ákveðin hætta fólgin í því að lána vegna þess að lánveitandinn getur hugsanlega eignast eignina og ekki losnað við hana aftur. Það getur verið ákveðið vandamál. En ég held að miðað við þá þjónustulund sem þessir aðilar sýna á höfuðborgarsvæðinu og þá miklu peninga sem þeir hafa í höndunum og þurfa að koma í vinnu muni þeir leita út á landsbyggðina, þ.e. út á virk svæði þar, ekki síður en til Reykjavíkur.

Auðvitað vantar þá oft og tíðum staðbundna þekkingu vegna þeirrar miðstýringar sem var á lánamarkaðnum á Íslandi, hann var mjög miðstýrður og öll þekkingin liggur í Reykjavík. Þá kemur kannski að því að veita útibúum og sparisjóðum úti á landi aukið vægi í lánveitingum, þeim aðilum sem hafa staðbundna þekkingu, sem vita að þessi eign er handónýt og hin er mjög góð, að Jón borgar alltaf allar sínar skuldbindingar og Gunnar borgar aldrei neitt. Það er slík staðbundin þekking sem er mjög mikilvæg þegar menn stunda lánveitingar.

Það sem ég vil benda á í þessu sambandi og lítið hefur komið fram eru gæði útlána. Þegar menn eru farnir að lána 80% af kaupverði fasteignar eða verðmætis má lítið út af bera þannig að eignin fari í mínus, að einstaklingurinn skuldi meira en hann á. Einungis 10% verðlækkun á fasteignaverði getur valdið því. Fasteignir eru vara sem hægt er að framleiða og verið er að framleiða núna á höfuðborgarsvæðinu óhemjumikið af fasteignum þannig að þessi hækkun á fasteignum heldur nokkuð örugglega ekki áfram og það kann að koma ákveðin lækkun á fasteignum eins og gerst hefur á hlutabréfum þar sem lækkunin var heil 20% eða nálgaðist það þegar verst lét en hefur reyndar gengið til baka. Þá gæti það hæglega gerst að fasteignir lækki um 10% og það ættu menn að hafa mjög alvarlega í huga þegar þeir eru að veðsetja og taka lán allt að 90%. Þetta þurfa einstaklingar að hafa í huga og þetta þurfa lánveitendur sérstaklega að hafa í huga, þeir þurfa að treysta mjög vel á lántakann þegar þeir lána slíkt, og það gæti orðið mjög hættulegt fyrir lánastofnanir í landinu ef almenn lækkun yrði á fasteignaverði.

Ég get ekki látið hjá líða að geta um umsögn fjármálaráðuneytisins. Það var mjög skemmtilegt að sjá í frumvarpinu að þar kemur fram mat á áhrifum frumvarpsins á kostnað sveitarfélaga. Það er samkvæmt nýju samkomulagi sem gert hefur verið og er mjög til bóta. Væri skemmtilegt, frú forseti, að sjá líka umsögn um kostnað atvinnulífsins eða einstaklinga af frumvörpum. Það kemur vonandi í framtíðinni að farið verði að meta það hvað t.d. eftirlitsiðnaðurinn kostar fyrirtæki og einstaklinga.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins er ekki minnst einu orði á þær gífurlegu skuldbindingar sem gætu myndast hjá Íbúðalánasjóði ef vextir í landinu lækkuðu nú almennilega mikið, ef raunvextir færu niður í 2%. Þá væri Íbúðalánasjóður með feiknarlegar skuldbindingar, hundruð milljarða í lánum sem eru með föstum vöxtum sem honum ber að greiða og eru með ríkisábyrgð. Þetta hefur ekki verið rætt og þetta kemur ekki fram í umsögn fjármálaráðuneytisins, en gæti skipt milljörðum eða milljarðatugum ef vextir í landinu lækka, og ég sakna þess í umsögn fjármálaráðuneytisins að sú áhætta er til staðar.